miðvikudagur, maí 25, 2011

Ekki sá skarpasti

Sannreyndi áðan að máfar eru ekki skörpustu dýr í heimi. Vinur minn setti brauð á svalirnar hjá sér í von um að geta myndað máf, þeir flykktust svo þangað í hrönnum. Þeir voru mislengi að fatta að þeir kæmust ekki í gegnum öryggisglerið sem girðir svalirnar af, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Einn þeirra tók sér eina og hálfa mínútu á glerið áður en honum hugkvæmdist að snúa sér í hina áttina og fljúga upp í loftið. Félagi hans tók sér aftur á móti tíu og hálfa mínútu í þetta, og það eftir að við strákarnir höfðum meira að segja sett stól hjá honum sem hann gæti þess vegna notað sem flugpall, í von okkar um að hann færi eitthvað að setja saman tvo og tvo. Myndband væntanlegt.

Inshallah - Heimildamynd eftir Maurice Jacobsen




Íbúar Gazastrandarinnar hafa lifað árum saman við hernám, umsátur og stöðugar árásir Ísraelshers. Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Maurice Jacobsen bjó á Gazaströndinni í rúmt ár og kynntist lífi íbúanna. Kvikmynd hans Inshallah („ef guð lofar“), sýnir okkur að íbúar Gaza eru harðduglegir, snjallir og úrræðagóðir í baráttunni við ógnina og skortinn.

Heimildamyndin Inshallah veitir einstakt tækifæri til að kynnast lífi Gazabúa. Nafn myndarinnar „ef guð lofar“, lýsir þeirri óvissu um framtíðina sem fólkið býr við. Árásir Ísraelshers eru daglegur viðburður og ísraelskir stjórnmálamenn hóta enn stórárás svipaðri þeirri sem þeir gerðu um jól og áramót 2008/2009.

SÝND Í BÍÓ PARADÍS FIMMTUDAGINN
26. MAÍ KL. 20
Maurice Jacobsen verður viðstaddur sýninguna og svarar spurningum áhorfenda eftir sýningu.
Allur ágóði af sýningunni rennur til hjálparstarfa á Gaza. Miðaverð er 1150 krónur. Myndin er á ensku, ótextuð.

miðvikudagur, maí 04, 2011

Harpa

Varð þeirra forréttinda aðnjótandi að vera við hljómburðarprufu í Hörpu. Þar var leikin sinfónía eftir Shostakovich, fyrsti hluti 9. sinfóníu Beethovens og 2. sinfónían eftir Sibelius. Stórkostlegt. Hef svo í kvöld notið þess að hlusta á píanókonsert eftir Edward Grieg, Ave Maria eftir Sigvalda Kaldalóns og 9. sinfónían er í þann mund að hefjast. Velkomin Harpa eftir Þorkel Sigurbjörnsson greip mig aftur á móti ekkert sérstaklega, en það var svona "god nok" í mínum eyrum. Ómstríðari og módernískari verk Þorkels hafa reyndar sjaldnast höfðað sérstaklega til mín. Allir hafa sinn smekk og sjálfur hef ég verið hrifnari af verkum hans á borð við Heyr, himasmiður, en það þykir mér dásamlegt kórverk.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.