föstudagur, apríl 15, 2011

Netkunningi minn myrtur


Ég bið þá sem þetta lesa um einnar mínútu þögn í minningu ítalska friðaraktívistans Vittorio Arrigoni. Hann var myrtur á Gaza. Ég hef spjallað við hann á netinu og skipst á hlekkjum við hann. Virkaði vænsti maður, með sterka réttlætiskennd og einlægur baráttumaður fyrir friði og réttlæti fyrir Palestínumenn. Ég veit ekki hvort hópurinn sem rændi honum er raunverulega palestínskur eða ekki. Teikn eru jafnvel á lofti um að aðrir hafi verið að verki, t.d. Mossad. Ég veit það ekki, en skrýtnari hlutir hafa vissulega gerst. Sé hópurinn raunverulega palestínskur er þetta ekki bara viðurstyggilegur glæpur heldur einnig heimskulegur. Ég hélt að kóraninn bannaði að saklausir væru drepnir. Ef það er eitthvað helvíti til þá er ég viss um að þeir sem drepa saklausa, sérstaklega þá sem styðja meira að segja frelsisbaráttu Palestínumanna muni fara þangað. Fari þeir hrottar bölvaðir sem gerðu þetta, hverjir sem þeir eru. Þetta mun ekki verða málstað Palestínumanna til nokkurs framdráttar heldur styðja myndina af Palestínumönnum sem hryðjuverkamenn sem séu tilbúnir að drepa eigin stuðningsmenn í blindri von um pólitískan ávinning. Ég get ekki lagt of mikla á herslu á hversu þetta vinnur gegn málstað Palestínumanna og hversu heimskulegur, heigulslegur og hrottalegur glæpur þetta er.

Vittorio Arrigoni, hvíldu í friði.

Einar Steinn Valgarðsson, í stjórn Félagsins Ísland-Palestína.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.