Af vísunum í Bjart í Sumarhúsum
Það virðist vera í sérstakri tísku núna í stjórnmálaumræðu að vísa til Bjarts í Sumarhúsum máli sínu til framdráttar, en oft virðist þekking eða skilningur á verkinu harla lítill og fremur að fólk slái um sig með þessu. Rétt er að taka fram að Halldór Laxness var síst að hvetja til þess að farið væri að dæmi Bjarts, sem fórnaði öllu fyrir sjálfstæðishugsjónina, jafnvel eigin fjölskyldu og taldi mikilvægara að hafa nægt fóður handa kindunum heldur en mannfólkinu. Laxness hæðist í verkinu að einstrengislegri og blindri sjálfstæðishugsjón, enda átti á þessum tíma félagshyggjan sterkari ítök í honum. Eða að kannski sé hreinlega þetta mikill vilji í þjóðfélaginu að vera einstrengislegir og tuddalegir þverhausar.
Það þýðir þó ekki að Bjartur fái ekki einhverja sympatíska drætti í verkinu. Það birtist ekki síst í tvíræðu sambandi við Ástu Sóllilju. Hann verður á sinn hátt tragísk eða öllu heldur tragíkómísk hetja.
Laxness sagði sjálfur um persónuna eitthvað á þessa leið : "Hér var, eins og í Íslendingasögunum, gerð tilraun til að útmála hetjuskap manns óháð málstað hans. Og málstaður Bjarts í Sumarhúsum var rangsnúinn frá nánast öllum sjónarhornum að hetjuskapnum undanskildum".
Engin ummæli:
Skrifa ummæli