sunnudagur, apríl 17, 2011

The Flame Still Burns

föstudagur, apríl 15, 2011

Netkunningi minn myrtur


Ég bið þá sem þetta lesa um einnar mínútu þögn í minningu ítalska friðaraktívistans Vittorio Arrigoni. Hann var myrtur á Gaza. Ég hef spjallað við hann á netinu og skipst á hlekkjum við hann. Virkaði vænsti maður, með sterka réttlætiskennd og einlægur baráttumaður fyrir friði og réttlæti fyrir Palestínumenn. Ég veit ekki hvort hópurinn sem rændi honum er raunverulega palestínskur eða ekki. Teikn eru jafnvel á lofti um að aðrir hafi verið að verki, t.d. Mossad. Ég veit það ekki, en skrýtnari hlutir hafa vissulega gerst. Sé hópurinn raunverulega palestínskur er þetta ekki bara viðurstyggilegur glæpur heldur einnig heimskulegur. Ég hélt að kóraninn bannaði að saklausir væru drepnir. Ef það er eitthvað helvíti til þá er ég viss um að þeir sem drepa saklausa, sérstaklega þá sem styðja meira að segja frelsisbaráttu Palestínumanna muni fara þangað. Fari þeir hrottar bölvaðir sem gerðu þetta, hverjir sem þeir eru. Þetta mun ekki verða málstað Palestínumanna til nokkurs framdráttar heldur styðja myndina af Palestínumönnum sem hryðjuverkamenn sem séu tilbúnir að drepa eigin stuðningsmenn í blindri von um pólitískan ávinning. Ég get ekki lagt of mikla á herslu á hversu þetta vinnur gegn málstað Palestínumanna og hversu heimskulegur, heigulslegur og hrottalegur glæpur þetta er.

Vittorio Arrigoni, hvíldu í friði.

Einar Steinn Valgarðsson, í stjórn Félagsins Ísland-Palestína.

fimmtudagur, apríl 14, 2011

Af vísunum í Bjart í Sumarhúsum

Það virðist vera í sérstakri tísku núna í stjórnmálaumræðu að vísa til Bjarts í Sumarhúsum máli sínu til framdráttar, en oft virðist þekking eða skilningur á verkinu harla lítill og fremur að fólk slái um sig með þessu. Rétt er að taka fram að Halldór Laxness var síst að hvetja til þess að farið væri að dæmi Bjarts, sem fórnaði öllu fyrir sjálfstæðishugsjónina, jafnvel eigin fjölskyldu og taldi mikilvægara að hafa nægt fóður handa kindunum heldur en mannfólkinu. Laxness hæðist í verkinu að einstrengislegri og blindri sjálfstæðishugsjón, enda átti á þessum tíma félagshyggjan sterkari ítök í honum. Eða að kannski sé hreinlega þetta mikill vilji í þjóðfélaginu að vera einstrengislegir og tuddalegir þverhausar.
Það þýðir þó ekki að Bjartur fái ekki einhverja sympatíska drætti í verkinu. Það birtist ekki síst í tvíræðu sambandi við Ástu Sóllilju. Hann verður á sinn hátt tragísk eða öllu heldur tragíkómísk hetja.

Laxness sagði sjálfur um persónuna eitthvað á þessa leið : "Hér var, eins og í Íslendingasögunum, gerð tilraun til að útmála hetjuskap manns óháð málstað hans. Og málstaður Bjarts í Sumarhúsum var rangsnúinn frá nánast öllum sjónarhornum að hetjuskapnum undanskildum".

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.