föstudagur, apríl 10, 2009

Páskabreiðnefurinn



Ég hef aldrei skilið hvað kanínur eða hérar hafa með páskaegg að gera. Það er ekki eins og þau verpi eggjum eða eitthvað.
Ég er hins vegar með þá tilgátu að þetta sé upprunið hjá breiðnefinum. Hann er loðið spendýr eins og hérinn en ólíkt héranum verpir hann eggjum. Þar að auki hefur hann það fram yfir hérann að hann getur gefið frá sér eitur sem varnarviðbragð. Hversu svalt er það?
Eðilegasta skýringin á því hvers vegna hérinn hefði bolað breiðnefinum burt er einfaldlega sú að hérar eru miklu sætari og tiltölulega meinlausir, myndi ég ætla. Hversu krúttlegur er páskabreiðnefur sem spýr eitri?
Engu að síður er ég vinur litla mannsins, eða í þessu tilfelli vinur litla breiðnefsins og styð afskipta undirmálshópa í að ná fram viðurkenningu fyrir göfugt framlag sitt, jafnframt því sem þetta verður kærkomið tækifæri til að berjast gegn útlitsdýrkun og yfirborðsmennsku. Auk þess er ólíklegt að breiðnefurinn beiti eitrinu nema að honum sé ógnað. Munið að hann er örugglega hræddari við ykkur en þið við hann.
Ég hvet því alla til að taka höndum saman með mér til að páskabreiðnefurinn fái uppreisn æru!

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.