þriðjudagur, apríl 21, 2009

Ahmadinejad og Ísrael

Ég las í Mogganum í dag frétt um að Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti hefði úthúðað Ísrael á ráðstefnu um kynþáttafordóma í Genf og var forvitinn um hvað hengi á spýtunni.

Í sjálfu sér hefur Ahmadinejad í mörgu rétt fyrir sér, miðað við fullyrðingar hans sem vitnað er til í Mogganum. Ísraelsstjórn ER grimm og þar RÍKIR kynþáttahatur í garð Palestínumanna. Það er kannski full langt seilst að segja að “Ísraelsmenn” hafi “sent innflytjendur frá Evrópu og Bandaríkjunum (...) til að koma á stjórn kynþáttahaturs á hernumdu svæðunum í Palestínu”. Ísraelsmenn voru til að byrja með ekki til sem slíkir á þessum tíma, heldur voru gyðingar dreifðir um Evrópu og zíonisminn spratt upp samhliða öðrum þjóðernisstefnum á 19. öld, en skírskotaði til harmsögu gyðinga og þeirra ofsókna sem þeir höfðu þurft að þola svo öldum skipti. Zíonisminn tók hins vegar ekki tillit til íbúanna sem fyrir voru, þó að Theodor Herzl, upphafsmaður zíonismans hafi áttað sig á veru þeirra og hafi viljað að gyðingar eignuðu sér landið með góðu eða illu. Ég er hins vegar óviss um að hinn almenni gyðingur hafi litið svo á, fyrir honum hefur fyrst of fremst vakað að koma á nýjan stað, þar sem hann hefur viljað leggja sitt af mörkum við að byggja nýtt og betra samfélag. Menn eru gjarnir á að réttlæta ýmislegt fyrir sjálfum sér, og blekkja sig ef þess þarf, og hafa líklega fremur kosið að líta framhjá stöðu þeirra sem fyrir voru í landinu.
“Vesturlönd hefðu gert heila þjóð, það er Palestínumenn, heimilislausa undir yfirvarpi þjáninga gyðinga í í síðari heimsstyrjöldinni. Þá hefðu síonistar og bandamenn þeirra í Bandaríkjastjórn skipulagt innrásina í Írak.”
Fólksflutningar gyðinga til Palestínu voru hafnir löngu fyrir helförina en auðvitað ágerðist vandinn eftir hana. Enginn skyldi gera lítið úr þeim ólýsanlegu hörmungum sem gyðingar sættu með Helförinni og ljóst er að Evrópa var haldinn djúpri sektarkennd fyrir aðgerðir sínar og aðgerðaleysi. “Yfirvarp þjáninga” er því í hæsta lagi óviðeigandi orðalag, svo ekki sé meira sagt. Hvað Írak varðar, þá verð ég að játa að ég þekki ekki nógu vel til til að geta sagt til um réttmæti eða rangmæti þessarar fullyrðingar, þó ég hafi svo sem heyrt þetta víðar.
Segja má hins vegar að ýmis ríki hafi viljað friða samvisku sína með stuðningi við Ísraelríki eftir heimsstyrjöldina og ýmsir jafnvel viljað “losna við gyðingana”, því kynþáttahatur dó því miður ekki með Helförinni. Aftur á móti held ég líka að mörgum hafi gengið gott eitt til, ekki síst þeim sem minni hlut áttu að máli svo sem Íslandi, en fulltrúi Íslands, Thor Thors lagði til skiptingu Palestínu í tvö ríki, gyðinga og araba, sem gekk þó ekki eftir. Helsti glæpur Íslendinga gagnvart gyðingum var sú að vilja ekki taka á móti flóttamönnum, sem hefðu þá getað forðast þann hrylling sem beið þeirra. Aftur á móti hlutu Palestínumenn sannarlega þau hlutskipti sem Ahmadinejad lýsir.

Gallinn með gaura eins og Ahmadinejad, sem virðast fyrst og fremst pópúlistar (en ég tel Ahmadinejad sannarlega í þeim hópi og mörg dæmi eru því til stuðnings), er hins vegar sá að það verður erfitt að taka mark á þeim, jafnvel þegar þeir segja eitthvað að viti, því þeir hafa þegar gert það margt sem annað hvort virkar út á við heimskulegt eða hatursfullt til þess að afla sér í fylgis meðal hópa þar sem þeir vita að slík ummæli munu eiga hljómgrunn. Þá er oft höfðað til lægsta samnefnara. Fyrir stuðningsmönnum Ahmadinejads verður hann "karl í krapinu" sem þorir að standa upp í hárinu á Vesturveldum, sem hafa sannarlega leikið Íran grátt í gegn um söguna.
Minnisstæðasta dæmið um ódýran og ógeðfelldan pópúlisma Helfararráðstefnan svokallaða, sem fékk hljómgrunn meðal ýmsra sem báru kala til Ísraels, ekki síst vegna meðferðar þeirra á Palestínumönnum og vegna ósigra arabaríkjanna í stríðum við Ísrael, þá ekki síst eftirmálinn af friðarsamningum Ísraels og Egyptalands, þar sem miklar kvaðir voru settar á Egyptaland svo Egyptaland er nú háð Bandaríkjunum og Bandarísk hervera þar bætir ekki úr skák. Þó er einnig stutt í beina fáfræði og fordóma fyrir þá sem þekkja ekki meira til Ísraela og gyðinga en til þessarar neikvæðu birtingarmyndar, sem svo blandast margvíslegum gróusögum svo ekki verður auðvelt að greina sannleika frá uppspuna. Sökum þess að helförin hefur oft verið notuð pólitíkst þá er því miður útbreytt að íbúar Mið-Austurlanda hafi enga eða takmarkaða þekkingu og skilning á Helförinni og því ginnkeyptari fyrir áróðri. Ráðstefnan varð gróðrarstía fyrir rasisma enda var henni út á við beint gegn Helförinni, en virðist þó fyrst og fremst hafa verið ódýrt trikk til að krækja sér í fylgi á afmörkuðum stöðum og þá lítið skeytt um álit umheimsins.
Ég veit svo sem ekkert hvort Ahmadinejad sé í sjálfu sér sérlega umhugað um málefni Paestínu. Honum er hins vegar pottþétt umhugað um hvort kjósendum hans sé umhugað um Palestínu.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.