sunnudagur, mars 29, 2009

Næturljóð úr Fjörðum

Yfir í Fjörðum allt er hljótt
Eyddur hver bær hver þekja fallin
Kroppar þar gras í grænni tótt
gimbill um ljósa sumarnótt
Háreistum fjöllum yfirskyggð
ein er þar huldufólksbyggð

Bátur í vör með brostna rá
bíður þar sinna endaloka
lagði hann forðum landi frá
leiðina til þín um vötnin blá
Aldrei mun honum ástin mín
áleiðis róið til þín

Fetar þar létt um fífusund
folaldið sem í vor var alið
aldrei ber það um óttustund
ástina mína á vinafund

Grær yfir leiði grær um stein
gröfin er týnd og kirkjan brotin
Grasrótin mjúka græn og hrein
grær yfir huldufólksins bein
grær yfir allt sem áður var
ástin mín hvílir nú þar


-- Böðvar Guðmundsson

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.