Leikhús og kór
Helgin var góð, skemmti mér hið besta á Árshátíð Háskólakórsins. Tónleikarnir á Akranesi heppnuðust líka vel. Ég minni á seinni tónleika kórsins annað kvöld kl. 8. Ég er að selja miða í forsölu á þúsundkall, mig má nálgast í síma 862 9167.
...
Í gær fór ég á afar áhrifaríka leiksýningu í Borgarleikhúsinu, tíu mínútna leikritið Sjö gyðingabörn - Leikrit fyrir Gaza eftir Carol Churchill. Leikritið varpar upp sjö svipmyndum úr mismunandi tímum í sögunni þar sem foreldrar, og eftir geðþótta leikhópsins, fleiri ættingjar ræða hvað eigi að segja börnunum, hvað ekki og hvernig. Sögusviðið hefst í helförinni, þaðan til stofnunar Ísraelsríkis, þaðan til stríðanna við arabalöndin og hernámsins og endar með árásunum á Gaza.
Fyrir þá sem misstu af sýningunni, þá getið þið lesið leiktexta Churchill hér.
Þann 4. stefni ég svo á að fara á sýninguna Ég heiti Rachel Corrie. Hef lengi hlakkað til að sjá þá sýningu.
...
Lag dagsins er Old English Folk Song, hér flutt af Bob Saget. Bassinn tók þetta lag sem atriði á árshátíðinni, að tillögu Höskuldar. Ég, Höskuldur og Pascal skiptum með okkur erindunum og hinir sungu bakraddir. Ég lék undir á gítar og svo tókum við allir síðustu tvær línurnar saman í kór.
...
Í dag eru 60 ár liðin frá inngöngu Íslands í NATO. Kl. 5 í dag verður útifundur á Austurvelli þar sem sú krafa er gerð að Ísland standi utan hernaðarbandalaga.
Ármann Jakobsson íslenskufræðingur og María S. Gunnarsdóttir formaður MFÍK flytja stutt ávörp. Fundarstjóri verður Stefán Pálsson formaður SHA.
Síðast en ekki síst verður botninn sleginn úr Nató á táknrænan hátt.
Friðarsinnar eru hvattir til að fjölmenna. Ísland úr Nató!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli