Miriam Shomrat
Átti afar ánægjulegt kvöld í matarboði hjá Lovísu frænku minni með familíunni. Snæddum dýrindis ýsu og spiluðum púkk. Fæ þá skilaboð um að það sé viðtal við Miryam Shomrat í sjónvarpinu. fyrst var ég ekki viss hvort hún væri stödd hér á landi eða ekki. Kemst svo að því núna að viðtalið er tekið áður en "nýjustu átökin urðu á Gaza" eins og það var orðað í fréttinni. Ekki það að ég harmi sérstaklega að missa af málsvara lyga, morða, hernáms og kerfisbundinna mannréttindabrotna vera að reyna að afsaka þá stefnu eða að ég sé hrifin af því að henni sé veittur ræðupallur hér og boðið í kaffi og kleinur eins og fínni frú og fái silkihanskameðferð, hvort sem um er að ræða fundi eða viðtöl: "Sumum finnst að viðbrögðin við árásum Hamas séu ef til vill full harkaleg" og þar fram eftir götum (minni á Ha'aretz-fréttina sem ég vísaði á hér að neðan). Fyrr má nú rota en dauðrota. Kalli Ísraelar þetta þetta "vörn" (sem það er ekki) þá myndi ég ekki vilja sjá hvað þeir kalla "árás". Það er líka ekki eins og áróður Ísraelsstjórnar fái ekki nægan vettvang annars staðar.
Öryggisráðið er að fara að funda og vonandi að skýr krafa verði sett á Ísrael að láta af fjöldamorðunum, að umsátrinu verði aflétt þegar í stað, að hernámi Ísraels á palestínsku landi linni, réttur palestínsku þjóðarinnar til sjálfsákvörðunar verði virtur og réttur flóttafólks til að snúa heim aftur verði virtur í samræmi við alþjóðalög um mannréttindi og mannúð.
Ég óttast að Bandaríkin og Bretland muni beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir að eitthvað gagngert verði gert í málinu.
Ísland þarf þarf að tilkynna Ísrael að láti Ísraelar ekki af fjöldamorðum muni Ísland slíta stjórnmálasambandi. Það dugar ekkert minna núna. Eindregin fordæming hrekkur ekki til ef henni er ekkert fylgt eftir. Ísrael hefur hundsað allar ályktanir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðadómstólsins og mannréttindahreyfinga, en þetta er sterkt pólitískt vopn og myndi hafa fordæmisgefandi áhrif. Ísrael er annt um stjórnmálatengsl sín og það er góðs viti að Tyrkland, sem hingað til hefur verið bandamaður þeirra gagnrýni árásirnar, en betur má, ef duga skal. Á meðan fjölgar þeim hundruðum palestínumanna sem er verið að slátra og þúsundum særðra og einnig ísraelskum borgurum og nú eflaust hermönnum líka. Þegar þetta er skrifað hafa(skv. nýjustu tölum mínum) um 550 manns verið drepnir á Gaza. 4 ísraelskir hermenn eru að auki fallnir og 2 ísraelskir borgarar (hafi þeim fjölgað frá síðustu tölum, biðst ég velvirðingar).
Áður en nokkuð annað gerist verður þessu að linna. Gagnkvæmt vopnahlé þarf að komast á en það mun hvorki komast á né vara á meðan engri af ofangreindum grundvallarmannréttindakröfum Palestínumanna er fullnægt. Hvað þurfa margir að vera drepnir og særast í viðbót áður en fólk áttar sig á því?
Það er alveg sniðugt að hafa augun opinn ef Shomrat skyldi koma hingað. Diplómatar gera sjaldnast opinberlega boð á undan séð, hvað þá ef þeir hafa slæman eða umdeildan málstað að verja.
"Óvæntur stuðningur" segir Mogginn. Öllu má nú nafn gefa. Ekki get ég allav. að hann hafi verið mér "óvæntur", þó mér þyki það ekkert síður viðurstyggilegt fyrir vikið. Það er alveg ljóst hvar aum og gjörspillt stjórn Egyptalands stendur í þessum efnum. Hún færi aldrei setja sig gegn vilja Vesturveldanna á meðan hún treystir á efnahags- og heraðstoð frá þeim, sbr. grein Robert Fisk sem ég vísa á hér að neðan; The Rotten State of Egypt is too Powerless and Corrupt to Act.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli