miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Vopnahlésdagur og kór

Á meðan ég mundi eftir afmælisdegi Vonnegut (nokkuð helgur dagur fyrir mér) þá var það ekki fyrr en daginn eftir að ég las að nú væru liðin 90 ár frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar, 11. 11. 1918, kl. 11. Vonnegut fæddist sumsé á sama degi sex árum síðar. Þetta var skelfilegasti hildarleikur sem menn höfðu upplifað fram að því, sbr. orð Gunnars Gunnarsonar skálds síðar um hann:
"...þessi styrjöld á næstu grösum bylti um koll vaknandi trausti mínu til framtíðar og forsjónar, sneri með hrottagalsa ærðra undirdjúpa dýrðaróði lífsins í djöflasæringu ...Sál mín varð sem sviðið land, saurgað fúlum valköstum, hver urinn akur minnti mig á skotplægða mold, mengaða nýsundurtættum mannahræjum. Mér blæddi inn."

Menn óskuðu þess að þetta væri síðasti viðlíka hildarleikurinn en bæði Gunnar og Vonnegut lifðu aðra styrjöld, Vonnegut lifði það að vera hermaður í henni, vera tekinn til fanga í Dresden og vera þar þegar Dresden var jöfnuð við jörðu, en um það skrifaði hann frægustu bókina sína, meistaraverkið Slaughterhouse Five. Amma mín fæddist á lokaári heimsstyrjaldarinnar og slapp heim til Íslands ekki löngu áður en seinna stríð skall á, en hún var í tónlistarnámi úti í Berlín. Hún varð einu sinni nánast of sein í próf þar sem gatan sem hún ætlaði að fara yfir var lokuð vegna skrúðgöngu þar sem í voru Hitler og Mussolini. Þar sá hún þá báða.

Þegar Vonnegut fæddist minntust Bandaríkjamenn loka fyrri heimsstyrjaldarinnar sem Armistice Day. Á sjálfum deginum 1918 var svörtum fánum flaggað í Reykjavík, þegar þjóðfánar blöktu í flestum öðrum löndum, þar sem spænska veikin geisaði á Íslandi.
Seinna var Armistice Day breytt í Veteran's Day, og var Vonnegut ekki par hrifinn af því, sem von var. Á meðan fyrri dagurinn minnti fólk á hrylling stríðsins var hægt að nota þann seinni til að ala á frekari hermennsku. Vonnegut segir um þetta í lok formálans að Breakfast of Champions:

"...I will come to a time in my backwards trip when November eleventh, accidentally my birthday, was a sacred day called Armistice Day. When I was a boy, and when Dwayne Hoover was a boy, all the people of all the nations which had fought in the First World War were silent during the eleventh minute of the eleventh hour of Armistice Day, which was the eleventh day of the eleventh month.
It was during that minute in nineteen hundred and eighteen, that millions upon millions of human beings stopped butchering one another. I have talked to old men who were on the battlefields during that minute. They have told me in one way or another that the sudden silence was the Voice of God. So we still have among us some men who can remember when God spoke clearly to mankind.

...

Armistice Day has become Veterans' Day. Armistice Day was sacred. Veterans' Day is not.
So I will throw Veterans' Day over my shoulder. Armistice Day I will keep. I don't want to throw away any sacred things.
What else is sacred? Oh, Romeo and Juliet, for instance. And all music is."


...

Þann 24. og 25. þessa mánuðar heldur Háskólakórinn tónleika í Neskirkju, þar sem við flytjum Messías eftir Händel. Hljómsveitina munu skipa hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og einsöngvarar eru Sibylle Köll mezzosópran, Hlöðver Sigurðsson tenór, Valdimar Hilmarsson baritón og Þórunn Marinósdóttir sópran. Miðaverð er 1500 krónur í forsölu hjá kórmeðlimum eða í gegnum kor@hi.is en 2000 krónur við dyrnar.
Meðal annars sem við flytjum er lag Gunnsteins Ólafssonar, stjórnandans okkar við ljóð Steins Steinarrs, Landsýn 26.5.1954. Ég er í senn hrifinn af ljóðinu og laginu og birti það fyrra hér (þið verðið að koma á tónleikana til að heyra lagið, hehe):

Landsýn
26.5.1954


Ísland, minn draumur, mín þjáning, mín þrá,
mitt þróttleysi og viðnám í senn.
Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá,
hún vakir og lifir þó enn.

Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán,
og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.
Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,
mín skömm og mín tár og mitt blóð.

-- Steinn Steinarr

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.