þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Af forsetakosningum í Bandaríkjunum

Í nótt eru kosningar í Bandaríkjunum og maður hefur blendnar tilfinningar, að ekki sé sagt að maður sé pólitísk taugahrúga, þegar maður spáir í hversu mikið er í húfi. Ég trúi að eftir langa valdasetu Bush & félaga þyrsti bandarísku þjóðina og umheiminn í breytingar. En spurningin er hvernig þær eiga að verða. Eins og maðurinn sagði, þá er mun auðveldara að vita hverju maður er á móti heldur en hvað maður aðhyllist. Það þyrfti gagngerar breytingar á kerfinu úti eins og heima til þess að ástandið gæti batnað.
John McCain er herskár og forpokaður íhaldsskarfur og Sarah Palin, well, 'nuff said. Það get ég helst sagt McCain til ágætis að hann tekur eindregna afstöðu gegn pyntingum, talar enda af reynslu, hafandi verið pyntaður í Víetnam.
Obama hefur sjarma og lofar ýmsum breytingum en ég er skeptískur. Clinton hafði líka sjarma sem gerði honum kleyft að komast upp með ýmis myrkraverk. Í dag muna flestir helst eftir Lewinsky-málinu, búið og basta. Af orðum Obama og gjörðum að dæma sé ég ekki fram á miklar breytingar. Obama hefur t.d. gefið í skyn að hann væri reiðubúinn að láta varpa sprengjum á Pakistan, hann vill aukinn hernað í Afghanistan og gekk skrefinu lengra en flestir í sleikjuskap við AIPAC. Þó að hann þræti fyrir það, þá er framboð hans styrkt af auðvaldinu.

Tveir af eftirlætis dálkahöfundunum mínum hafa fylgst náið með kosningabaráttunni, ísraelski friðaraktívistinn Uri Avnery og ástralski fréttamaðurinn John Pilger.

John Pilger er gagnrýninn á frambjóðendur og kerfið. Hann tekur Obama fremur á orðum hans og gjörðum hingað til. Það er sannarlega vert að rifja upp greinar hans; Obama, the prince of bait-and switch,In the great tradition, Obama is a hawk,From Kennedy to Obama: Liberalism's Last Fling ogThe Dance Macabre of US-style Democracy

Uri Avnery hefur einnig fylgst vel með, ekki síst vegna þeirra áhrifa sem kosningarnar gætu haft á Ísrael og samskipti Palestínumanna og Ísraela, og skrifað áhugaverðar greinar þar sem hann íhugar framboð Obama og möguleg áhrif þess á átökin í Mið-Austurlöndum. Hann er bjartsýnni en Pilger, en e.t.v. glámskyggn. Avnery telur ekki mikið að marka kosningaloforð, flest sé þetta tal til að krækja í atkvæði sem víðast og það sé eðlismunur á McCain og Obama, en Pilger telur þá í heildina hluta af sama kerfi. Avnery sleppir þó ekki gagnrýni á Obama, t.d. á AIPAC-sleikjuskapinn. Það er líka vel þess virði að skoða greinar Avnery ( í tímaröðini nýjasta til elsta); Our Obama, King of the Planet, A Knight on a Grey Horse, Satan's Counsel, No, I Can't og Two Americas.

E-n veginn óttast ég að Pilger hafi rétt fyrir, þó ég voni að Avnery hafi rétt fyrir sér, í ljósi þess að Obama er sterkur kandídat. Það er spurning hversu maður dæmir menn eftir orðum þeirra fyrir kosningar. Í raun er ómögulegt að vita það fyrr en eftir kosningar, á endanum eru það auðvitað verkin sem tala. Eða eins og Sókrates sagði: "Það eina sem ég veit er að ég veit ekki neitt", allav. ekki á þessu stigi. Allt getur gerst. Ég minni líka á að úrslitin eru engan vegin ljós á morgun, talning getur dregist, það getur verið endurtalið og ámóta kosningasvindl getur átt sér stað og þegar Bush náði völdum, sökum meingallaðs kerfis, véla og klækjabragða til að útiloka að fólk geti kosið og fá atkvæði ógild með skriffinnsku. Loks á svo hæstirréttur eftir að kveða upp úrskurð sinn.

Það er gömul saga og ný að fólkið sem ég myndi vilja sjá ná valdastöðum nær þeim sjaldnast, eða þá ekki háum. Þannig studdi ég t.d. helst Þriðju leiðina í forsetakosningunum í Palestínu, sem Dr. Mustafa Barghouti fór fyrir. Hann hefur mér löngum þótt vera rödd skynseminnar í deilunni. Af þeim sem nú eru í framboði til forseta í Bandaríkjunum líst mér líklega best á Jerry White og Bill Van Auken sem fara fyrir Socialist Equality Party. Stephen Colbert fór í grínframboð í einu fylki og dró framboð sitt seinna til baka, en hefði hann haldið framboðinu til streitu hefði ég pottþétt kosið hann, hefði ég mátt kjósa. Ég minni þó kjósendur í Marvel-heiminum á að hann er enn í framboði þar. Ég hefði einnig stutt Jon Stewart, hefði hann gert alvöru úr því að fara í framboð. Khalil Bendib gat ekki orðið forseti þar sem hann er ekki fæddur í Bandaríkjunum, en hann hefði eflaust orðið fínn forseti. Hann var með slagorð eins og “The prez with the fez” og “The pen is funnier than the sword”. Noam Chomsky myndi líka eflaust seint bjóða sig fram í núverandi kerfi, verandi fremur hallur til anarkisma, plús það að ég hugsa ekki að hann hefði áhuga á því, en hann ætti minn stuðning vísan. Vel þætti mér líka að sjá Paul Krugman sem fjármálaráðherra.

...

Maður fær víst ekki alltaf það sem maður vill. *dæs*

Þá er alltaf gott og hressandi að fylgjast með umfjöllun Jon Stewart í The Daily Show um forsetaframboðin. Við það má bæta að ég hef oft heyrt fólk tala um að menn á borð við Spaugstofukarlana hafi gengið of langt í gríninu sínu á kostnað valdamikils fólks í samfélaginu. Þeir gagnrýnendur ættu að kynna sér hvernig grínistar taka á sínu valdaliði í Bandaríkjunum. Það er gjörsamlega tekið í nefið, allav. í bestu þáttunum, t.d. The Daily Show, South Park og The Colber(t) Repor(t). Í samanburði er þessi gagnrýni hreinlega hlægileg, það er alla jafna farið stimamjúkum silkihönskum um valdaliðið hér heima og því þykir jafnvel oft upphefð að birtast í Spaugstofunni, en ég held ekki að valdaliðið útí í Bandaríkjunum sé sérlega hrifið af því að vera dregið sundur og saman í háði í The Daily Show.
Besti pólítíski grínistinn hér heima finnst mér vera Halldór Baldursson. Gott að hafa e-n sem sýnir smá tennur. Hann hlífir heldur engum og gerir ekkert upp á milli manna pólitískt þegar kemur að góðu háði.

Lög dagsins eru Elected með Alice Cooper:


og America með Rammstein


Að endingu vona ég að kjósendur hafi kynnst sér framboðin og kosið eftir sinni bestu samvisku.
Vel gerir sá sem lifir í voninni.

1 ummæli:

HieronymusP sagði...

Mér þætti gaman að vita hvað þér finnst um tilvonandi starfsmannastjórann, Rahm Emanuel. Miðað við það sem ég hef lesið væri hann ekki beint maður að þínu skapi.

En þetta hefði getað orðið verra. Við hefðum getað fengið frú Palin einu hjartaáfalli frá kjarnorkuhnöppunum.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.