föstudagur, mars 21, 2008

Lítill er heimurinn

Merkilegt hvernig nýlegar fréttir sem ég hef heyrt tengjast. Fyrir nokkrum dögum frétti ég að sá mikli stórsöngvari Ivan Rebroff væri látinn. Var það mér harmdauði, þó ekki þekkti ég manninn persónulega, því ég hef löngum verið mikill aðdáandi. Það er líka ekki á hvers manns færi að komast 4 áttundir. Ef lesendur vilja hlusta á lög þar sem Rebroff nýtur sín til hins ítrasta bendi ég á lög á borð við Wenn ich einmal reich Wäre, Mütterchen Ruβland og Abendglocken.

Nokkrum dögum seinna kemur frétt um að hvarf Antoine De Saint-Exupérie, sem m.a. skrifaði hina dásamlegu bók Le Petit Prince sé upplýst. Þýskur flugmaður, Horst Rippert, heldur því fram í nýlegri heimildamynd um þann fyrrnefnda að allar líkur séu á að hann hafi skotið flugvél hans niður í stríðinu. Þegar það gerðist hafði hann ekki hugmynd um hver það var sem hann skaut, en Rippert var og er mikill aðdáandi de Saint-Exupéry og var auðsjáanlega miður sín í viðtalinu.
Það hlýtur annars að vera einn mesti hryllingur stríðs, að drepa eða að þurfa að drepa einhvern sem mann líkar við eða dáir. Það leiðir hugann að því þegar gert var hlé á árásum í fyrri heimsstyrjöldinni á jólunum og andstæðingarnir fóru yfir víglínuna, hittu hvorn annan, og spiluðu fótbolta saman. Daginn eftir þurftu þeir svo að halda áfram stríðinu og drepa þá mögulega einhvern sem þeir höfðu hitt og líkað við.
Báðar fyrrnefndar fréttir þykja mér merkilegar ,en ekki síst þegar ég les að Horst Rippert er enginn annar en bróðir Ivans Rebroff, en Rebroff er fæddur Hans Rolf Rippert.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æ, þetta er hæpað. Hann hafði djúpa sviðið, svo hafði hann falsettuna, en ekkert þar á milli.

Einar Steinn sagði...

Ég er ekki svo viss um það. Maðurinn hafði ótrúlegt raddsvið. Prufaðu allav. að hlusta á áðurnefnd lög.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.