föstudagur, janúar 25, 2008

Mér þykir vert að benda lesendum á góða grein Guðbergs Bergssonar um Jóhannes úr Kötlum sem birtist upphaflega sem Kjallaragrein í DV þann 11. desember í fyrra. Það hefur varla farið fram hjá lesendum þessa bloggs að ég met Jóhannes og verk hans mikils og þykir miður, ef rétt er að hann sé hálf gleymdur í dag.
Þó verður að mæla á móti meintri gleymsku að jólavísurnar hans hafa reynst afar lífsseigar, en e.t.v. fleiri sem kannast við þær en vita að þær eru eftir hann.
Ég bý svo vel að eiga ljóðasafnið hans en ég er ekki viss um að þar séu öll ljóðin hans, sýnist þetta fremur vera úrval. Auk ljóðanna er þar að finna ritgerðasafnið Vinaspegil. Ég hef skyggnst fyrir eftir Verndarenglunum en hvergi fundið.

M.a. segir Guðbergur í greininni:

Mig grunar að í verðandi en tímabundnu gægjulífi munum við fremur leita til skrifa skálda en stjórnmálamanna eða sagnfræðinga. Það er einhvern veginn þannig að skáldin segja mestan sannleika, jafnvel þótt hann beri keim af lygum.

Ég held að ég geti vel tekið undir þann grun.

Enn fremur: Bestu næringu er að finna hjá gleymda eða hálfgleymda jálkinum sem hélt sínu striki, var útigangshross en samt nægilega mikið með afturfæturna og taglið á línunni innan um gæðinga í haga að hann gat hneggjað út úr sér innsýn í tvo heima.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.