mánudagur, janúar 28, 2008

Gott er að eiga góða að...

Ég rambaði inn á heimasíðu um daginn þar sem bloggari sem nefnir sig Calvin skrifar um morð á líbönskum þingmanni, Pierre Amine Gemayel undir fyrirsögninni Vinur Ísraels og Vesturlanda myrtur í Líbanon
Nú skal strax tekið fram að ég þekki ekki mikið til þessa tiltekna stjórnmálamanns annað en það sem ég hef ráðið úr skrifum téðs Calvins.
Ég er líka ekki viss hvað hann á við með einkunninni sem hann gefur þingmanninum í fyrirsögninni og hvort ég teldi það manninum til hróss eins og Calvin virðist nota það, það eru t.d. ekki endilega bestu vinir Ísraels sem styðja áframhaldandi hernám, stríð og mannréttindabrot. „Vinur Vesturlanda“ getur oft merkt „taglhnýtingur vestrænnar heimsvaldastefnu“.
Það vakti hins vegar athygli mína að bloggari segir hins vegar þingmanninn hafa verið í „stjórnmálaflokki kristinna“ en að flokkurinn hafi jafnframt verið „á móti íslömskum og trúarlegum stjórnarháttum“ (leturbreyting mín). Þetta virkar nú á mig eins og dálítil mótsögn. En athygli mín jókst þegar ég las að flokkurinn sem maðurinn tilheyrði er enginn annar en Falangistar. Kannast lesnendur við hrottaleg Fjöldamorðin í Sabra og Shatila? Bloggarinn kallar morðingjana hryðjuverkamenn sem séu „líklega gerðir út af sýrlenskum stjórnvöldum“. Gott og vel. Hvað myndi hann hins vegar kalla fjöldamorðingjana og þá sem stóðu að baki? Hvað finnst honum um aðild Ísraels? Ariel Sharon var t.a.m. fundin persónulega ábyrgur og vikið úr embætti varnarmálaráðherra.

Hvað sem öðru líður er alla vega alltaf gott að vita að maður á góða að.

Annars hefur saga átakana verið ógeðfelld og hrottaleg fjöldamorð og níðingsverk hafa viðgengist á báða bóga, svo sem Karantina- og Damour-fjöldamorðin.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.