laugardagur, janúar 05, 2008

Heimsókn Ali Zbeidat til Íslands

Opinn fundur í Alþjóðahúsinu í dag - Laugardaginn 5. janúar, kl 14.00
Félagið Ísland-Palestína hefur starfsemi sína á nýju ári með heimsókn blaðamannsins og aktivistans Ali Zbeidat til Íslands og opnum fundi með honum í Alþjóðahúsinu, laugardaginn 5. janúar. Fundurinn hefst klukkan 14:00. Aðgangur er öllum opinn
.

Ali Zbeidat er fyrrum pólitískur fangi sem í áraraðir barist fyrir mannréttindum Palestínumanna sem búa innan landamæra Ísraels (stundum kallaðir ísraelskir arabar). Hann hefur ísraelskan ríkisborgararétt og er búsettur í bænum Sakhnin, sem í dag liggur innan landamæra Ísraelsríkis.

Rúmlega milljón Palestínumenn búa innan landamæra Ísraels við ýmisskonar mismunun. Staða þeirra er þó önnur en landar þeirra handan viðurkenndra landamæra Ísraels búa við á Vesturbakkanum og Gaza, þó Ísraelsmenn ráði þar einnig lofum og lögum. Sakhnin er stærsta byggð Palestínumanna í Norður-Galíleu, ekki ýkja langt frá Nazaret, þar sem íbúarnir eru bæði múslimar og kristnir. Þar hefur löngum verið mikil andspyrna gegn hernámi Ísraelshers 1948 og afleiðingum þess.

Sakhnin er umkringd ísraelskum landsetubyggðum og hafa íbúarnir bæjarins orðið fyrir bæði skipulegu landráni og eyðileggingu heimila sinna þegar landsvæði eru lögð undir landsetubyggðir gyðinga. Þann 30. mars árið 1976 drápu ísraelskar öryggisveitir sex íbúa bæjarins er þeir mótmæltu ráni á ræktarlandi sínu og urðu þessir atburðir kveikjan að árlegum mótmæla- og samstöðudegi, Land deginum, meðal Palestínumanna innan landamæra Ísraels sem annarstaðar.

Í upphafi fundarins verður sýnd 25 mínútna heimildarmynd um skipulega eyðileggingu á íbúðarhúsum Palestínumanna - en fjölskylda Ali sjálfs hefur átt á hættu að missa heimili sitt eftir að það var úrskurðað ólöglegt af ísraelskum yfirvöldum. Að sýningu lokinni flytur Ali ræðu um Palestínumenn í Ísrael, það er hlutskipti íbúa palestínsku svæðanna sem hertekin voru 1948 og innlimuð í Ísraelsríki. Þá mun hann fjalla um pólitíska fanga í Ísrael, en um ellefu þúsund Palestínumenn; karlar, konur og börn eru nú í ísraelskum fangelsum. Að lokinni ræðu hans verða fyrirspurnir og umræður.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þótti mér nú svolítið erfitt að hlusta sökum umhverfishávaða á Cultura. Hávaði úr eldhúsinu og þjónustufólkinu.

Einar Steinn sagði...

Sammála því. Að öðru leiti hef ég ekkert nema gott um fundinn að segja.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.