laugardagur, nóvember 24, 2007

Háskólakórinn og Ungfónía




Næstkomandi sunnudag 25. nóvember kl. 20:00 og þriðjudag 27. nóvember kl. 20:00 heldur Háskólakórinn sameiginlega tónleika með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins þar sem Sinfóníuhljómsveitin flytur sinfóníu nr. 100, "Hersinfóníuna", eftir Joseph Haydn, og hljómsveitin og kórinn flytja síðan í sameiningu Messu í C-dúr eftir Ludwig van Beethoven. Messan var samin árið sem Jónas Hallgrímsson fæddist, árið 1807. C-dúr messan er mun sjaldnar flutt en Missa Solemnis, helsta stórvirki tónskáldsins á sviði trúarlegrar tónlistar, en fegurð hennar er engu lík og aðdráttaraflið á unga íslenska flytjendur óþrjótandi. Ásamt kórnum og sinfóníuhljómsveitinni syngja fjórir ungir einsöngvarar í verkinu. Óhætt er að lofa áheyrendum sterkri upplifun sem þeir munu seint gleyma.

Verð aðgöngumiða til námsfólks í forsölu er 500 kr., til fullorðinna í forsölu 1.000 kr. og við inngang 1.500 kr. Miða má fá hjá öllum kórfélögum eða panta á kor@hi.is.

Háskólakórinn hefur verið starfræktur síðan 1972 og er kórinn alla jafna skipaður stúdentum við Háskóla Íslands. Í kórnum er mikill metnaður í flutningi verka, en hann heldur að minnsta kosti eina tónleika á ári auk þess að syngja við útskriftir og ýmsar aðrar athafnir Háskólans. Stjórnandi Háskólakórsins er Gunnsteinn Ólafsson og eru meðlimir í dag rúmlega sextíu talsins úr vel flestum deildum háskólans.

Háskólakórinn syngur tónlist af ýmsu tagi en yfirleitt er lögð aðaláhersla á íslenska tónlist og á hverju ári er frumflutt eitt verk eftir íslenskt tónskáld.

Kórinn heldur æfingabúðir tvisvar á ári, útilegu einu sinni á sumri, mörg samkvæmi, þar á meðal árlegt grímuball og árshátíð, og margt fleira. Farið er í utanlandsferð annað hvert ár og íslensk tónlist kynnt fyrir fólki þeirra landa sem verða fyrir valinu hvert sinn.



Fyrir þá sem ekki vita er undirritaður í Háskólakórnum. Þetta er alveg stórfenglegt verk, maður kemst allur við að syngja það. Það má m.a. nálgast miða hjá mér. Síminn er 862 8167. Þið getið líka sent mér Emil.

And now for something completely different:

Andaktungurinn brá sér til tannlæknis í gær. Flaug honum ýmsar senur úr Pondus í hug á meðan á því stóð. blessunarlega var nafni minn tannlæknirinn bara nokkuð ánægður með settið, og enga skemmd var að finna. Andaktugurinn minnst raunar aðeins að hafa fengið eina skemmd á lífsleiðinni. Því getur andaktungurinn smælað sínu colgate-brosi framan í heiminn, tönnum sem minna á nýrúnar ær.

Þó sagði hann mér að ég þyrfti að draga úr gos- og safaneyslu. Tennurnar eru dálítið sorfnar eftir hana, og ég þarf að passa glerunginn. Þetta er ekki komið á hættustig, en á hinn bóginn kæri ég mig ekkert sérstaklega um að það lendi þar.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.