Árið var 1986...
... og ég var tveggja ára. Á því ári gaf hljómsveitin Metallica út plötuna Master Of Puppets, en sveitinni átti ég eftir að kynnast og falla fyrir 11 árum síðar, með kynnum mínum af plötunni ...And Justice For All, sem kom út næst á eftir Master..., en þetta var önnur þungarokkssveitin og þriðja þungarokksplatan sem ég fílaði. Fyrstu tvær voru Sehnsucht og Herzeleid með Rammstein. Ég er á því að það sé besta plata Metallica og einhver besta plata þungarokksins. Hún er alla vega ein allra uppáhalds þungarokksplatan mín. Hún fengi fullar fimm stjörnur hjá mér ef ekki væri fyrir hversu illa hún er hljóðblönduð. Master Of Puppets og Ride The Lightning fylgja svo fast á eftir. Hér var Jason Newsted kominn á bassann eftir að Cliff Burton fórst í rútuslysi. Mér hefur annars alltaf þótt Jason kúl og vanmetinn. Vegna hljómsins á Justice... er bassinn vægast sagt illgreinanlegur. Þarna voru þó einhverjar metnaðarfyllstu hljómsmíðar Metallica, í senn melódísk lög og hrátt þungarokk, bandið var fjandanum þéttara og kröftugra en andskotinn. Þeir höfðu líka aldrei hljómað jafn djúpir, reiðir og pólítískir og verið með jafn góða og beitta texta. Söngur James Hetfields hefur aldrei verið jafn flottur og á þessari plötu. The fire and the fury.
Sama ár og Metallica gaf út Master... léku þeir á tónleikunum hvaðan þetta myndband er komið, þar sem þeir leika For Whom The Bell Tolls. Það er skemmst frá því að segja að undirrituðum andaktung finnst þessi flutningur vægast sagt magnaður. Cliff fer auk þess á algjörum kostum, auk þess að hafa verið æðislegur bassaleikari var hann líka svo hrikalega kúl.
Metallica gerði sitt fyrsta tónlistarmyndband við eðallagið One sem var á Justice... Lagið byggir á kvikmyndinni Johnny Got His Gun sem Dalton Trumbo gerði eftir samnefndri stríðsádeiluskáldsögu sinni. Aðalpersónan berst í seinni heimsstyrjöldinni og stígur á jarðsprengju. Hann vaknar á spítala og er þar haldið á lífi með vélum. Hann sér ekkert, né heyrir, né getur mælt og getur hvorki hreyft legg né lið. Hann er eins konar lifandi dauður. Myndbandið sýnir annars vegar bandið að spila æi vöruksemmu en notar hins vegar myndbrot úr kvikmyndinni. Brotin smellpassa við lagið, veita því aukna dýpt og öfugt, samræmingin svínvirkar. Frá því að ég sá fyrst myndbandið hefur það haldist uppáhalds tónlistarmyndbandið mitt og það er ekki af ástæðulausu að það hefur iðullega unnið kosningar um besta tónlistarmyndbandið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli