fimmtudagur, október 11, 2007

Peace Sells But Who's Buying? Af friðarsúlu og NATO-fundi

Ég hef blendnar tilfinningar gagnvart friðarsúlunni. Í sjálfu sér finnst mér hugmyndin falleg: "Imagine peace" og þetta er óneitalega býsna tilkomumikið, þó ég hafi nú aðeins séð súluna í úðamistri. Ég er auk þess aðdáandi Lennons, bæði held ég upp á tónlistina hans og ber virðingu fyrir honum og þeim boðskap sem hann breiddi út. Ég sé heldur ekki ástæðu til að efast um heilindi Yoko Ono.
Á hinn bóginn er ýmislegt kaldhæðnislegt við þetta allt saman. Þetta er ríkisstjórninni klárlega PR-stönt en friðasúlan endurspeglar síst utanríkisstefnu ísklenskra stjórnvalda eða friðarvilja þeirra. Ríkisstjórnin hefur stutt ólöglegt innrásarstríð í Írak, er á lista hinna viljugu þjóða og styður enn við “uppbyggingu” í Írak, þ.e.a.s. aðgerðir hernámsliðsins, leppstjórnarinnar og kóna þeirra. Svipað er svo uppi á teningnum í Afghanistan, við höfum aldrei andmælt hernáminu þar eða stríðsherrabandlaginu, heldur ljáum þeim stuðning með “friðargæslu”. Á sama tíma og friðarsúlan er tendruð er svo NATO-fundur í Reykjavík og þrjú herskip NATO í höfninni.

Það hefur vakið athygli mína hversu fjölmiðlar viðast hafa lagst sig fram við að forðast sem mest umfjöllun um mótmæli gegn NATO og fundinum um helgina. UVG auglýstu friðsæla og táknræna mótmælaathöfn laugardaginn 6. okt. Og Samtök hernaðarandstæðinga auglýstu fund í Litlu-Brekku í Bankastrætinu mánudaginn 6. október. Ég hafði rekist á eina litla frétt, að mig minnir á RÚV, fremur en Vísi, þar sem nefnt var að þrír mótmælendur væru að mótmæla við Laugardalshöll.Einnig var nefnt í fréttinni að álfyrirtækjum væri mótmælt og þjóðarmorðum og rústun náttúru væri líkt saman. Tókst mér hins vegar ekki að finna þessa frétt aftur. Að henni undanskilinni hef ég ekki séð eina einustu frétt um mótmælin, hvorki á RÚV, vísi, né mbl.is, utan eina. Hún hljóðar svo:

Mótmæli voru höfð í frammi við Laugardalshöllina í dag, þar sem Nato-þingið er haldið. Lögregla fór með ungan mann á stöðina en sleppti honum síðan. Sá hafði klifrað upp í flóðlýsingar-mastur með áróðursborða. Listamaður setti upp hápólitískt verk, segir í tilkynningu, og mótmælt var rekstri herstöðvar Nató í Hollandi. Í tilkynningunni kemur fram að nokkrir erlendir þingmenn hafi gefið sig á tal við mótmælendur og farið hafi vel á með þeim.

Takið eftir því að hvergi kemur fram fjöldi mótmælanda. Það þykir heldur ekki áróður þegar hernaðarbandalag fundar og reynir að afla fylgis en ef mótmælaborði er hengdur upp þá er það “áróðursborði”.
Hvernig fóru mótmælin fram? Hvernig voru þau sótt? Hvernig var fundurinn? Mættu margir? Hvað kom fram á mótmælunum og fundinum? Hvernig hljómar tilkynning mótmælandanna? Getur einhver frætt mig um það?

Hitt sem vekur ekki síður athygli er að Samtökum hernaðarandstæðinga var hvergi boðið að taka þátt í partýinu.

PS Ég er náttúruverndarsinni en þykir fólk vægast sagt á hálum ís þegar það er farið að leggja rústun náttúru og þjóðarmorð að jöfnu. Sjá skrif Evu um “sálarmorð”.

Pps Og já, það er rétt. Bjarminn frá súlunni minnir óneitanlega á Batman-merkið. Gotham City needs you.

Við tölum ekki lengur um stríð....

3 ummæli:

Bastarður Víkinga sagði...

Bíddu, er staður til þar sem friðarsúla væri ekki ironísk?

Antartíka? Svalbarði?

Einar Steinn sagði...

Tjah, ef landið sem hún væri staðsett í hefði friðsama utanríkisstefnu og þar sem þetta væri síður tækifæri fyrir egórúnk stjórnvalda, "landkynning" (í þessu samhengi verður tískuorðið "útrás" einng sérlega íronískt) að sýna hvað þau séu óttalega friðsöm og líbó þegar allt annað er uppi á teningnum, þá væri íronían kannski síðri. Eins og er er hún allav. últra-íronísk.

Uh... bleh... Sviss?

Flott ummæli annars sem höfð eru eftir John Lennon, ég held að hann hafi verið spurður að þessu þegar hann var í Bítlunum: "Why don't you write more anti-war songs?" John svarar: "All our songs are anti-war" :)

Svalbarði og Antartíka þykir mér hreint ekki slæmar hugmyndir.

Vésteinn sagði...

Frekar sveppaský.


Og þessi umræddi mótmælandi var einn að verki.


Eins og Lee Harvey Oswald.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.