mánudagur, október 22, 2007

Annir

Ég mun víst eiga nokkuð annríkt næstu daga. Bæði er það annir sem ég þarf að sinna og sjálfskapaðar.
Ég þarf að troða inn tíma í vikunni til að fara með tveimur skjóstæðingum mínum í bæjarferð. Ég er sumsé núna í 20% vinnu á Kleppi í liðveislu. Hver ferð er upp í fjóra tíma í senn. Mun svo taka eina og eina 8-tíma kvöldvakt þegar vantar. Ég fékk annars hrós frá deildarstjóranum mínum fyrir nokkrum dögum, hún er mjög ánægð með mig og ferðirnar hafa gengið vel. Það þótti mér vænt um. Mér hefur enda alltaf þótt bæjarferðirnar skemmtilegastar í vinnunni á Kleppi.
Fyrir 7. nóvember þarf ég að vera búinn að vinna minn hluta í hópfyrirlestri um japanskar hrollvekjur. Sami hópur þarf líka að skila úthendum úr greinum og ég á eftir að fara yfir eina af þremur og lesa greinina. Fyrir mánaðarmót stefni ég á að reyna að þýða grein fyrir Frjálsa Palestínu, svo er samantektarverkefni ú Jane Austen-grein sem ég man ekki hvenær ég á að skila. Ég þarf að lesa mig upp, bæði bækur og greinar og horfa á 2 kvikmyndir. Á morgun fer ég í tíma og kór kl. 17:15-19:30. Miðvikudag fer ég væntanlega í aðra bæjarferðina auk þess að leika sem statisti í áramótaskaupinu. Sýnist samt að ég fari í aukatíma í Ingmar Bergman samdægurs og gæti ég því þurft að sleppa öðru hvoru. Á fimmtudag fer ég í tvöfaldan tíma, kór og raddæfingu og verður því lokið kl. 9. Á föstudag fer ég í tíma, hópurinn á hrollvekjur og ég fer í Halloween-party. Á eftir að útbúa mér búning. Á laugardag færi ég mögulega í aðra bæjarferð og svo er grímupartý kórsins um kvöldið.
Auk þess hef ég verið að vinna að pólítískri grein/bréfi sem mig langar til að senda eihverju dagblaðinu, en ég þarf að tryggja að hún sé "up to date" og veit ekki hvenær ég get gefið mér tíma í það.

Sem stendur er ég að lesa The Haunting of Hill House eftir Shirley Jackson, en hana lesum við í Hrollvekjukúrsinum. Góð bók, sú. Þá er ekki sannarlega ekki amalegt að sötra te og vera með upptökur frá 4. áratugnum með fiðlukonsert í D moll opus 61 eftir Ludwig van Beethoven og fiðlukonsert í E-moll opus 64 eftir Felix Mendelsohn í flutningi Fílharmoníusveitar Lundúna, þar sem ekki ómerkari maður en Fritz Kreisler leikur á fyrstu fiðlu, í eyrunum.
Ekki er þó ólíklegt að ég fari að skreiðast í bólið enda hef ég vakað of mikið og sofið of lítið síðustu daga.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.