fimmtudagur, júní 21, 2007

Tækifæriskveðskapur

Tækifæriskveðskapur getur verið mjög skemmtilegur þó hann sé mis merkilegur pappír. Undanfarið hef ég ort smá af slíku. Fyrsta vísan á sér þá sögu að Vésteinn sagði mér frá því þegar hann og Bessi rákust á sameiginlegan kunningja okkar um árið þar sem sá sat einn á Grand Rokk í horni og sötraði kakó. Nokkuð dapurleg sjón. Skoruðum við bræður svo hvor á annan að yrkja nú vísu um þetta. Ég man ekki Vésteins utan að en hér er mín:

Kneyfar kakó
kútur stíft
svellur sveini ásmegin
Hvað er dapurra
dreng ungum
hímandi í horni


Út frá færslu Unu um Teflon, sem hvorki ég né Grjóni skildum varð svo þetta til þegar ég hafði mælt svo um að ég hefði greinilega búið undir steini:

Blággrýti í blænum
blundaði þar undir
grámyglulegur greppur
greinilega Einar
Heiti kennat hót
hatrammur vill rata
Gref ég mig í grufli
grunar lítið, Una

Teflon téð(an?)
trauðla þekki
Engu vís að viti
Herm mér, hláfdís
heitis meining
sefa þú mitt sinni

Í teiti með kórnum var farið í ratleik og ein af þrautunum fólst í að semja klúra vísu. Það gerði ég og tókst ágætlega upp. Verst er að ég hripaði hana bara á eitthvað snifsi og er ekki viss um hana og man hana ekki nógu vel, því er nú verr og miður. Finni ég snifsið eða rifjist vísan upp fyrir mér mun ég pósta honum, takandi þá áhættu að lesnendur andaktungsins telji hann óforbetranlegan sordóna. Það væri þó aðeins hálfsannleikur. Rekist ég á fleira skemmtilegt eða fljóti fleira af vörum mínum eru góðar líkur á að ég muni pósta fleiru.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.