föstudagur, mars 23, 2007

Misjöfn eru morgunverkin...

Hjá undirrituðum fólust þau í að sofa og slæpast svo fram eftir degi.
Hékk fyrir framan heimatölvuna í rúmlega tvo tíma, reit bloggfærslu, gleymdi mér við skrifin og kom hálftíma of seint í salsa. Það kom hins vegar ekki að sök og ég verð hvort eð er í massífu salsa á morgun.

Á leiðinni á námskeiðið fékk ég hins vegar hugmynd að ljóði, hvárt ég settist svo niður og samdi áðan. Þetta er söguleg stund, þögnin er rofin. Ég hef verið í ljóðaritunarpásu/með ritstíflu síðan einhvern tíma í fyrra. Ég birti það hér í núverandi formi, en vel kynni að vera að ég snurfusaði það eitthvað frekar, ef ég finn þörf eða löngun til slíks.
Núna er ég voða montinn af sjálfum mér.

Tilfinningarök

"Menn, konur og börn í valnum
limlest, svívirt og saurguð
afskræmd, fólk kúgað og niðurlægt
svipt ástvinum, lifandi í örbirgð
tortíming, fólk lepjandi dauðann úr skel
hver dagur skelfing, fólk í angist
fólk á flótta
fólk sem er búið að ræna fortíð sinni
nútíðin er martöð
framtíðin óvissa
fólk sem veröldin hefur gleymt
fólk sem veröldinni stendur á sama um
Allt þetta nístir mig"
segi ég
þar sem við skeggræðum á Mokka
"Piff,
tilfinningarök"
segir þú
sýpur dreggjarnar úr kaffibollanum
og skellir hellunum
fyrir eyrun

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.