Alþjóðlegur samstöðudagur með Palestínu og opinn fundur 29. nóvember.
Félagið Ísland-Palestína stendur fyrir opnum fundi á alþjóðlegum samstöðudegi Sameinuðu þjóðanna með réttindabaráttu palestínsku þjóðarinnar. Fundurinn fer fram á Hótel Borg, miðvikudaginn 29. nóvember kl. 20:00. Aðalræðumaður er Ziad Amro, fyrrum framkvæmdastjóri og síðar formaður Öryrkjabandalags Palestínu. Balzamersveitin Bardukha mun einnig leika nokkur lög af nýútkominni plötu.
Ziad Amro er 41 árs félagsráðgjafi að mennt, fæddur í Hebron. Hann er helsti frumkvöðull í málefnum fatlaðra í Palestínu; stofnandi, fyrrum framkvæmdastjóri og síðar formaður Öryrkjabandalags Palestínu.
Ziad sem er sjálfur blindur er jafnframt forystumaður í samtökum blindra.
Hann er kvæntur, býr í nágrenni Ramallah og á tvö ung börn.
Balzamertónlist Bardukha á rætur sínar að rekja til austur-evrópskrar, arabískrar og persneskrar þjóðlagahefðar auk sígaunatónlistar. Sveitin hefur haldið nokkra tónleika síðustu misserin og komið fram bæði í sjónvarpi og útvarpi. Sveitin er skipuð Hjörleifi Valssyni, harmonikkuleikaranum Ástvaldi Traustasyni, kontrabassaleikaranum Birgi Bragasyni og arabíska handtrommuleikaranum S.G. (Steingrímur Guðmundsson).
29. nóvember ár hvert er alþjóðlegur samstöðudagur að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna með réttindabaráttu palestínsku þjóðarinnar.
Félagið Ísland-Palestína var stofnað var þann dag árið 1987
Allir eru velkomnir á fundinn og vonumst við til að sjá sem flesta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli