sunnudagur, apríl 30, 2006

Eftir próf tel ég líklegt að ég muni snúa mér eitthvað að bóklestri, mér til ánægju fróðleiks og yndisauka. Liestinn yfir þær bækur sem mig langar að lesa er gríðarlangur, og nokkuð auðsýnt að ég muni ekki komast yfir hann allan á þessu ári, heldur muni ég þurfa að velja og hafna. Svo margar bækur, svo lítill tími, eins og vinkona móður minnar orðaði það.
Það er til dæmis ekki loku fyrir það skotið að Heljarslóðaorrusta Benedikts Gröndal verði fyrir valinu. Ég hef ekki lesið hana enn, en gluggað í hana, og er hún í senn bráðskemmtileg og fyndin og skrifuð af stakri stílsnilld. Skopriddarasaga, þar sem Gröndal blandar skemmtilega saman kjarnyrtu máli fornsagnanna,viðamiklum lýsingum, afkáraleik, alþýðleik og ýkjum, raunveruleika og ævintýri að ólgeymdum hinum óborganlega húmor sem hann hefur. Gröndal hefur orrustuna við Solferino milli Frakka og Þjóðverja sem efnivið. Hér er til dæmis samtal Napóleons III við sagnfræðinginn Thiers þegar Napóleon er að gera sig tilbúinn að herja:

Keisarahjónin mættu Thiers í garðinum. Thiers var með fyrsta bindið af uppreistarsögunni og var ófrýnilegr í bragði, því hann hafði fundið prentvillu í bókinni, le fyrir de, og þótti illt, ef mönnum skyldi detta í hug að bera uppreistarsöguna sína saman við Þjóðólf.
„Kondu sæll Thiers,“ sagði Napóleon.
„Komið þær sælir, Napóleon minn,“ sagði Thiers.
„Nú, hvurnin lízt þér á mig núna,“ sagði Napóleon
„Vel,“ sagði Thiers.
„Eru ekki all-hermannleg vopnin mín,“ sagði Napóleon.
„Jú,“ sagði Thiers.
„Er þetta ekki fallegr skjöldr,“ sagði Napóleon.
„Jú,“ sagði Thiers.
„Hvurnin þykir þér ljónið málað á hann? Er ekki vinstri fótrinn á því nokkuð stuttr?“ sagði Napóleon.
„Jú,“ sagði Thiers.
Er ekki þetta laglegt spjót,“ sagði Napóleon.
„Jú,“ sagði Thiers.
„Eru ekki rosabullurnar mínar vígamannligar,“ sagði Napóleon.
„Jú,“ sagði Thiers.
„Er ekki brynjan mín liðleg?“
„Jú,“ sagði Thiers.„Svo hef jeg helvíta mikla duggarapeisu af Ófeigi í Fjalli innanundir, sem Þjóðólfr hefir gefið mér,“ sagði Napóleon.
„Það er svo,“ sagði Thiers.
„Jeg held jeg verði ekki votr í þessar peisu,“ sagði Napóleon.
„So,“ sagði Thiers.
„Nú, hvaða andskoti ertu fúll, Thiers,“ sagði Napóleon.
„Á,“ sagði Thiers.
„Já, þú svarar ekki nema tómum einsatkvæðisorðum“ sagði Napóleon.
„Hm“ sagði Thiers.
„Hvurnin heldrðu þetta fari allt saman,“ sagði Napóleon.
„Jeg veit ekki,“ sagði Thiers.
„Jæja, vertu nú sæll Thiers,“ sagði Napóleon.
„Verið þér sælir, Napóleon minn,“ sagði Thiers.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.