Í dag vaknaði ég óvenju snemma, þ.e. miðað við sjálfan mig. Ég er vanalega mikið dauðyfli á morgnanna. Í dag var tekin fyrsta skóflustungan að fyrirhuguðu Háskólatorgi og Háskólakórinn söng eitt lag, Krummavísur. Held að okkur hafi farist það vel úr hendi. Það var samt dálítið fyndið að sjá hvað við vorum öll svefndrukkin þegar við hittumst í kapellunni en við hresstumst fljótt. Kaldur vindurinn átti sinn þátt í því. Sjálfum þótti mér ekki amalegt að fá mér heitt kaffi. Það verður að segjast að þó það hafi verið dálítið kalt og vindur var þetta vægast sagt langt frá helvítis skítaveðrinu í gær.
Af tónleikunum er það að segja að þeir heppnuðust með eindæmum vel. Tuma fannst við aldrei hafa sungið betur, og var hann ekki einn um þá skoðun. Áheyrendur virtust hrifnir og við vorum sjálf hæstánægð. Að tónleikunum loknum héldum við á Viktor og snæddum þar kvöldverð samn og þaðan var haldið í partý til Kristjáns. Þar vantanði snnarlega ekki jörfagleðina. Ég þakka Kristjáni enn og aftur fyrir frábært partý.
Ég finn það sífellt meira hvað mér þykir þrælvænt um þennan kór. Bæði finnst mér við vera góður kór og mér þykir vænt um þá góðu félaga mína sem hann skipa.
Sem ég fór til hárskera í dag, til að láta snyrta höfuðprýði mína og rýja kjammana, varð mér gengið framhjá höfninni og var heillaður af fegurð Esjunnar. Esjan er með ólíkindum fögur snævi þakin í kuldanum og birtunni og það lýsti af henni.
Fyrir nokkrum dögum lauk ég við að lesa Íslenskan aðal eftir Þórberg Þórðarson. Þessi bók er afbragð og hefur veitt mér miklar ánægjustundir. Ég mæli tvímælalaust með henni.
Young Americans með David Bowie, af samnefndri plötu, syngur í höfðinu á mér. Það er lag dagsins.
fimmtudagur, apríl 06, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli