laugardagur, apríl 29, 2006

...Fólk er hér þægilegt og beint áfram, og mjög lítið um ósiði, kvenfókið hefur hér engin brjóst, sem ekki heldur þarf, því hér fæðast engin börn, heldur kvikna börnin eins og maðkar í moldu; karlmenn ganga allsberir á veturna, nema með kýl, en í loðfeldum, ljónshúðum og pardusskinnum á sumrin, og hafa kylfu í hendi, sem er vætt í brennivíni í toppinum. Hér er aldrei miðvikudagur, heldur hleypur tíminn yfir þann dag, svo þá er ekkert, klukkan er hér aldrei tólf, heldur alltaf eitt. Hér kyssir maður allt kvenfólk við hvern punkt í ræðuni, þegar maður talar við það; klappar þeim á hægri kinnina við hvern semikolon og faðmar þær við hverja kommu; þegar exclamationsteiknin koma fyrir, þá má maður gera við þær, hvað sem maður vill. Hér er dagurinn svartur á kviðnum en grænn á bakinu; á sumrin er snjóaður himinn á nóttunni, en alstirnd jörðin; allt vín rennur hér upp í móti svo glösin eru alltaf á hvolfi. Láti maður gull í ána Rín, þá verður allt að Brynhildarkviðum, en ávextirnir á eplatrjánum eru hér tómir biblíukjarnar. Kvenfólk tekur hér allt í nefið, en karlmennirnir upp í sig. Magnús Grímsson er hér aldrei nefndur, en allt fólk grætur yfir honum klukkan háfsjö á morgnana...
-- úr bréfi Benedikts Gröndal til Eiríks Magnússonar, dagsettu 30. ágúst 1858. Þá dvaldist Gröndal í klaustri í þorpinu Kevealer í Þýskalandi.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.