miðvikudagur, september 07, 2005

Meira af náttúruhamförum í New Orleans



Það nístur mann að sjá fréttirnar frá New Orleans. Sérstaklega þessar fréttir frá Fox. Aldrei hefði ég búist við að Fox, af öllum stöðvum, myndi segja svo nákvæmlega frá og og vera með annað eins ákall til fólks. Fólki var haldið í Super Dome og það mátti ekki fara þaðan. Því var sagt að það myndi fá hjálp þar en það fékk enga. Það þurfti mat, vatn og rafmagn. Geraldo Rivera sýnir manni blákaldan raunveruleikann, að þetta fólk þurfti að þola hreinasta helvíti og hann er, skiljanlega, í miklu uppnámi. Blessunarlega mun fókinu núna hafa verið hleypt úr byggingunni.
Það er eðlilegt að manni hitni í hamsi. Maður hlýtur að spyrja sig, hver djöfulinn sé verið að að hugsa. Hví var fólki haldið inni, hvers vegna fékk það ekki hjálp, hvers vegna gripu stjórnvöld ekki strax í taumana? Hvers vegna biðu þau 4 daga áður en nokkur hjálp barst? Enn er fjöldi fólks sem hefur ekki fengið nokkra hjálp og hefur ekki fengið að yfirgefa borgina. Hvað á það að þýða að láta ríka borgara New Orleans ganga fyrir að fá að yfirgefa borgina? Hvern djöfulinn á það að gagnast fólki að George Bush mæti á svæðið eða Rumsfeld? Hefði þeim ekki verið nær að koma fólkinu strax til bjargar? Hefði þeim ekki verið nær að leggja meira fé til varnar borgarinnar áður en flóðbylgjan skall á, í stað þess að skera niður fé til þess?
Fólkið þarf allt að fá mat, vatn, drykk og það þarf að fá heilbrigðisþjónustu. Það þarf áfallahjálp. Það þarf að finna allt fólkið, grafa látna og það þarf fé til uppbyggingar New Orleans. Það er nauðsynlegt að leggja mikið fé í að bæta varnir borgarinnar, svo þetta endurtaki sig ekki. Fólkið þarf að fá lífsviðurværi á ný. Ætti þetta ekki að vera brýnara en að bæta einhverja fjárans ímynd? Ætti þetta ekki fremur að vera forgangsatriði heldur en að senda þungvopnaðar fjöldasveitir á staðinn, sem „hika ekki við að skjóta á þá sem trufla störf eða ræna“?
Þúsundir hafa látist og dáið og fólk er enn að deyja. Eins og Nagin borgarstjóri benti á, er fullt af tíkarsonum sem eru tilbúnir að nýta sér neyð náungans en þorri fólksins er bara að reyna að lifa af. Ef það fær ekki lífsnauðsynjar, verður það að ræna þeim. Hann benti líka á að dágóður fjöldi þeirra sem hafa brotist inn eru eiturlyfjafíklar, sem fá ekki eiturlyfin sín og geta ekki fjármagnað neysluna. Þetta er martröð. Ég held að fyrrnefnd atriði ættu að ganga fyrir þeirri lausn að „skjóta bara á þá að vild“. Ég held að síðarnefnda „lausnin“ sé ekki að fara bæta ástandið og leysi ekki nein vandamál.
Væri íslensku ríkisstjórninni ekki eins nær, í stað þess að gera hosur sínar grænar fyrir Sameinuðu þjóðunum fyrir ógrynni fjár, að verja þeim sömu peningum í staðinn til hjálpar þessu nauðstadda fólki? Hvar er hjálpin frá íslenska ríkinu? Við á Íslandi getum líka lagt okkar að mörkum.
Maður trúir varla ríkisstjórn Bandaríkjanna. Maður trúir varla heldur Sameinuðu þjóðunum. Ef forsetadruslan getur ekki sjálf andskotast til að veita nægu fé til aðstoðar fórnarlömbum og til uppbyggingar, ef hann var tilbúinn að sitja aðgerðalaus dögum saman og ef hann getur ekki andskotast til að biðja Sameinuðu þjóðirnar um aðstoð, eiga þá Sameinuðu þjóðirnar bara að sitja með hendur í vösum á meðan íbúar New Orleans lepja dauðann úr skel? Hvort skiptir meira máli, skriffinska eða mannslíf?

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.