Í fyrradag skruppum við bræður í sumarbústað um hádegisbil. Blíðskaparviðri lék við okkur. Er við komum að lóðinni var sjálfrennireiðinni ekki fært á veginum vegna drullu. Náttúrufegurðin var óviðjafnanleg. Landið var víða þakið snjó sem lýsti í sólinni en gróður hafði einnig rutt sér rúms og lyngið fagnaði okkur með litaskrúði. Enn mátti sjá grýlukerti glitra yfir lindinni. Himinn heiður og blár, hafið var skínandi bjart. Við bræður nutum kyrrðarinnar og fegurðarinnar og sóttum svo gamlar bækur úr bústaðnum sem við roguðumst með upp veginn í stórum plastkassa í snjó og drullu til að flytja í bæinn. Hefðum eflaust verið grunsamlegir að sjá. Húsið er að hruni komið og hryggðarmynd. Lóðin okkar, æskuátthagarnir hefur alltaf staðið hjarta mínu nær, verið athvarf, líkt og lítill sælureitur.
Ekki minnkaði náttúrufegurðin þegar við bræður keyrðum grafninginn. Snævi þakktir tindar, fjöllin voru klædd íshjálmi, fögur, tignarleg og ægileg í senn. Átti það ekki síst við um stuðlabergið í Jórukleif, snarbrattir hamrar og einnig um Jórutind, þar sem tröllkonan átti aðsetur sitt. Þar gnæfði varða efst við himinn. Við höfðum hugsað okkur að fara Nesjavallaveginn en urðum að snúa við sökum slæmrar færðar. Hafði þó kerling vægast sagt fengið eitthvað fyrir snúð sinn og héldum við glaðir í bæinn.
föstudagur, apríl 15, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli