Maldað í móinn
Mér finnst grátbroslegt að fylgjast með hversu stríðssinnar fárast yfir söfnun Þjóðarhreyfingarinnar. Geir Andersen er einn þeirra sem reynir að klóra í bakkann í grein á bls. 46 í Mogganum í gær. Hann gerir lítið úr Þjóðarhreyfingunni og söfnun hennar, gerir því skóna að þetta séu bitrir menn í leit að athygli og er svo með allar gömlu tuggurnar á hreinu. Hann er vægast sagt ómálefnanlegur, snýr út úr og tekur hlutina úr samhengi í grein þessari. Honum virðist mikilvægara að gera lítið úr aðstandendum hreyfingarinnar með að kasta mykju í þá en að ræða málstaðinn. Afkáralegast í grein Geirs var e.t.v. þegar hann talaði um Saddam Hussein sem ,,talið var (með réttu eða röngu) að kynni að hafa átt þátt í árásinni 11. september”. Úff!
Sama er uppi á teningnum hjá Kristni Péturssyni sem einnig ritar í Moggann í gær. Hann segir að Þjóðarhreyfingin tali „ekki í sínu nafni“. Hann um það. Það er ekki ætlun Þjóðarhreyfingarinnar að halda fram að hún tali fyrir munn allrar þjóðarinnar. Með greininni sem ætlunin er að birta í New York Times hefur hún hins vegar viljað sýna að stuðningur við stríð var í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar og að brotin voru lög þegar utanríkismálanefnd var ekki höfð með í ráðum við ákvörðunina og brotið á þeirri stefnu að Ísland skuli ekki vera stuðningsaðili í stríði á erlendri grundu. Alþingi kom af fjöllum. Einnig vísar hann til Keflavíkursamningsins, en þar var tekið skýrt fram að Íslendingar skyldu aldrei þurfa að koma að stríði.
Merkilegt, hversu menn fárast yfir nafni hreyfingarinnar, sem er jú óheppilegt, en forðast að ræða merg málsins. Kannski er það vegna þess að stoðirnar sem stríðssinnar byggja málflutning sinn á eru löngu hrundar. Það er sífellt flett ofan af lygavefnum sem hefur verið notaður til réttlætingar stríðinu en enn malda stríðsinnar í móinn. Þeir forðast ávallt sannleikann að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar var og er mótfallinn stríði. En vilji þjóðarinnar skiptir kannski minna máli en vilji ráðamannanna?
Margir bandarískir ráðamenn hafa þurft að éta ofan í sig ummæli sín og var sá biti súr í munni.
Kristinn Pétursson spyr hví félagar í Þjóðarhreyfingunni borgi ekki úr eigin vasa.
Þjóðarhreyfingin er ekki formlegur félagsskapur með félagaskrá, heldur fremur óformleg grasrótarhreyfing fólks sem er sammála um grundvallaratriði sem sett voru þegar hreyfingin var stofnuð. Ábyrgðarmenn eiga ekki asna sem lekur gullpeningum úr eyrum sínum en það er fullkomlega eðlilegt að hver sem styður málefnið geti lagt sitt af mörkum til að hjálpa því fram að ganga. Hann talar um að „plata saklaust fólk“. Meinar hann þá að það fólk sem kynni að styðja hreyfinguna, það fólk sem tilheyrir þeim yfirgnæfandi meirihluta sem er á móti stríðinu og stuðningi ríksstjórnarinnar við það séu ginningarfífl sem láta draga sig á asnaeyrunum, auðveld fórnarlömb ,,afturhaldskommatitta“? Mér finnst það bera vott um lítilsvirðingu við meirihluta íslensku þjóðarinnar að halda því fram að hann geti ekki hugsað fyrir sjálfan sig.
sunnudagur, desember 12, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli