Hið unga hjarta er líkt hafinu með myrkum harmadjúpum – það vakna gárar á því undan örveikum vindblæ hugarins, stormar þránnar koma róti á það – og á þetta haf skína hinar fyrstu ástir eins og ljós frá sólu, ýmist léttir sólstafir eða þung sólarbreyskja, hverful stund skín snögglega í hættulegu litaflúri, löðrið sem uppþeytist af losta og sársauka, freyðir og hjaðnar í sólundunarsamri helbirtu
Fjallkirkjan – “Nótt og draumur” eftir Gunnar Gunnarson, bls. 374, þýðing Halldórs Laxness
Í dag kláraði ég Fjallkirkjuna eftir Gunnar Gunnarsson. Hún er eflaust ein besta bók sem ég hef lesið. Ávallt setur að manni vissan söknuð og trega þegar maður hefur lokið við bók sem hefur hrifið mann með sér.
Ég hef áður bloggað um þessa bók og birt tilvitnanir í færslum 18. ágúst 2004 og 30. júlí 2004
Fjallkirkjan skiptist í 5 bindi. Þau eru ,,Leikur að stráum”, ,,Skip heiðríkjunnar”, ,,Nótt og draumur”, ,,Óreyndur ferðalangur” og ,,Hugleikur”. Fjallkirkjan er mjög innblásin af ævi Gunnars sjálfs og rekur þroskasögu Ugga Greipssonar, frá því hann elst upp ungur og saklaus drengur á Austfjörðum, þa4r til hann heldur til náms í Danmörku og fylgir svo erfiðum árum hans þar, þar sem hann reynir að draga fram lífið við ritstörf, uns hann öðlast viðurkenningu fyrir verk sín.
Það sem stendur mest upp úr við lesningu þessarar bókar er fegurðin, stílsnilldin og innlifunin sem maður finnur hjá Gunnari, þetta andrúmsloft sem hann nær að skapa, svo það verður ljóslifandi fyrir manni og samlíðunin sem hann vekur. Bókin er bæði tilvistarleg og heimspekileg og veltir einnig fyrir sér guðdómnum, en slík lýsing væri þó engan veginn tæmandi fyrir hana.
Gunnar lagði í fyrstu upp með að skrifa bók um lífið og margvíslegar myndir þess, að svo miklu leiti sem hann taldi sér fært að skynja það og skilja. Þó að saga Ugga verði rauði þráðurinn finnst mér Fjallkirkjan ekki síst fjalla um þetta. Leit mannsins að sjálfum sér, tilgangi og réttlætingu lífsins.
Gunnar lætur sér fátt mannlegt óviðkomandi. Halldór Laxness þýddi bókina óaðfinnanlega og maður getur skynjað hrifningu hans á verkinu af þeirri álúð og nærgætni sem hann hefur sýnt þýðingunni, hann hefur vegið og metið hvert orð svo að þeir töfrar sem í verkinu eru kæmust sem best til skila.
Það sem hreif Laxness ekki síst var að hér fjallaði Gunnar um íslenskt alþýðufólk og lýsir lífi þeirra, gleði og sorgum í þaula.
Ég vil ljúka þessari umfjöllun með eftirfarandi tilvitnun sem finna má á bls. 832 í Hugleik: Í þöglum, niðurbældum söknuðinum sindrar löngunin til að endurlifa hið leikandi líf, sjá aftur hina sólglöðu daga sem minningin geymir, hitta aftur þann sem maður hitti einu sinni, endur fyrir löngu...
laugardagur, október 02, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli