Þau ár þegar ég enn var ungur og saklaus að erfðasyndinni undanskilinni; þau ár þegar viðburðir lífsins miðluðu mér reynslu sem var laus við beyskju; þau ár þegar vorkunn mín með öllu kviku var ógagnrýn og einlæg; þau ár þegar Guð stóð mér fyrir hugskotssjónum sem örlátur og vingjarnlegur föðurafi, Fjandinn eins og dálítið varasamur og duttlungafullur móðurafi en undir niðri heimskur og meinlaus; þau ár þegar ljósið var í senn bæði ljós og sigursælt ljós og allt myrkur og allan ótta mátti særa burt með með einu faðirvori eða signingu; þau ár þegar ég grillti ekki kvöldið á morgnanna og sat öruggur í skjóli undir grasi grónum moldarvegg og lék mér að stráum; þau ár eru liðin og koma aldrei aftur.
Og það voru ekki árin ein sem liðu, margt af fólki þess tíma er nú ekki lengur, en sumt komið á tvist og bast, jafnvel minning þess lýsir stopulu ljósi eins og stjarna sem gægist fram annað kastið úr rofi
Þannig hljóðar upphaf fyrstu bókar Fjallkirkjunnar, Leikur að stráum eftir Gunnar Gunnarsson í þýðingu Halldórs Laxness. Bók þessa fékk ég upphaflega í fermingargjöf frá Jórunni og Arnari. En þá var ég lítill krakkaormur sem kunni ekki gott að meta eins og er algengt á þessum árum og má teljast gott að ég hafi ekki af visku minni skipt henni fyrir bland í poka.
Nú, mörgum árum seinna þegar ég er orðin eldri og þroskaðri kviknaði áhugi minn fyrir henni, og glæddist mjög við kynni mín af honum í bókmenntasögunni. Nú er ég í 2. bók af 5 sem nefnist Skip Heiðríkjunnar. Hinar eru Nótt og draumur, Óreyndur ferðalangur og Hugleikur. Ég er gjörsamlega heillaður af þessari bók enda er hún eitt af meistaraverkum norrænna nútímabókmennta. Fjallar bókin um uppvaxtarár Ugga Greipssonar frá því að hann er ungur og saklaus piltur á Austfjörðum uns hann er kominn út til Kaupmannahafnar að leita gæfunnar. Skáldið byggir söguna á eigin ævi. Bókin er einstaklega vel skrifuð og ég verða að taka undir með þýðanda; það sem sterkast er í bókinni er... hugblærinn, þetta andrúmsloft sem Gunnar skapar, dramatísk, oft hnyttin, myndræn heimspekileg og falleg. Hann hrífur mann með sér. Málið er líka svo hljómfagurt. Mitt eintak prýða svo ljómandi fagrar myndir eftir son skáldsins, Gunnar yngri listmálara.Þeim sem vilja kynna sér fremur ævi og störf Gunnars Gunnarssonar bendi ég á http://www.skriduklaustur.is/ -Gunnar skáld
föstudagur, júlí 30, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli