þriðjudagur, júní 29, 2004

Lag dagsins: Symphony með Olympiu (Sigurjón Kjartansson). Magnað lag. Hafi það einhvern tíman farið milli mála þá er Sigurjón Kjartansson frábær tónlistarmaður.

HAM-lög eins og Transylvania Animalia, Partýbær, Trúbroðasleikjari auk Tvíhöfðalaga á borð við Let me be your uncle tonight og Tvíhöfðalagið eru jafnframt til vitnis um ágæti þessa manns.

(Der lustigste Wits der welt :D )

-Wenn ist das Nunstruck git und Slotermeyer?
-Ja!...Beiherhund das Oder die Flipperwaldt gersput.

fimmtudagur, júní 24, 2004

Var á fyrstu næturvaktinni minni í nótt. Maður var nokkuð uppvakinn undir lok vaktar. Eftir nokkrar mínútur fer ég á tónleika með Deep Purple :):D
Svo er næturvakt hálf tólf svo ég gæti þurft að fara fyrr.
Highway Star, Maybe I'm a Leo, Smoke On The Water og Lazy af plötunni Machine Head búin að vera í spilun hjá mér.

All right, hold on tight, I´m a highway staaaaaaaaaaaar

þriðjudagur, júní 22, 2004

Here comes the sun do do do do
Here comes the sunand I say
it´s all right... :)

Af veðri, vinnu, Deep Purple og Kris Kristofferson;

Já, það er sannarlega búið að vera ljómandi veður undanfarið. Ég átti frí í dag og gatt því notið þess vel þó ég drattaðist seint úr bólinu. Var bara á rölti í veðurblíðunni í dag auk þess að lesa í Yfir Ebrofljótinu. Nú á ég 26 síður eftir. Búinn að vinna sjö daga í röð, svo þetta var afar kærkomið. Er á morgun-og næturvakt á morgun. Fattaði hins vegar í dag að Deep Purple tónleikarnir (sem ég á miða á) eru á fimmtudaginn, en þá er ég á næturvakt. Vonandi að ég get átt vaktaskipti við einhvern.
Ég bið ykkur ananrs að afsaka bloggleysi mitt undanfarið, því ollu leti, annir og ritstífla. Auk þess sem blogger-síðan var í einhverri serðingu. Ég skal nú reyna að bæta úr því.

Bróðir minn kær bauð mér á tónleika Kris Kristofferson um daginn og kann ég honum bestu þakkir fyrir. Við komum nokkuð seint og náðum í skottið á KK, sem hitaði upp ásamt Ríó Tríó. Hann brást ekki fremur en fyrri daginn, flutti tvö-þrjú lög sem ég þekkti ekki, afbragðs lög engu að síður, og loks kallaði hann systur sína Elleni Kristjánsdóttur upp og sungu þau hið yndislega og ljúfsára When I Think of Angels
Loks var svo komið að manninum sjálfum. Ég hafði satt að segja varla heyrt neitt með honum, að mér vitandi en heillaðist gjörsamlega af honum. Ég bloggaði áður um raddir sem hafa sterk áhrif og það á sannarlega við um Kris. Það sem stendur upp úr hjá mér í minningu þessa kvölds er...fegurð. Rödd hans var rödd hinna smáðu, samúð með lítilmagnanum og utangarðsfólki, ádeila á hatur, falsáróður, og styrjaldarbrölt (svo dæmi sé tekið) og boðskapur friðar. Hann spannaði nánast allan ferill sinn og að mínu mati er hann jafn mikið ljóðskáld og tónlistarmaður, djúpir pólítískir en um leið myndrænir textar sem vekja mann til vitundar, hann vílar ekki fyrir sér að gagnrýna það sem aflaga er í þjóðfélaginu og hreinskilnin og einlægnin skein í gegn.
Ég hef lengi haft gaman að kántrí-og þjóðlagatónlist en ólíkt því sem getur oft gerst með slíka tónlist varð tónlist Kris aldrei afkáraleg eða hjákátleg, með fagurri tónlist, djúpum textum, og hógværð og einlægni lyfti hann um leið þessari tónlist á æðra stig.
Það gekk svo sem ekki alveg hnökralaust, hann þurfti að stilla gítarinn og sneri á e-um stað munnhörpunni öfugt en hann gerði góðlátlegt grín að því. Og þegar til allra tónleikanna er litið skipta ein eða tvær feilnótur ekki miklu.
Eins fannst mér Magnús Ólafsson/Bjössi bolla ekki eiga vel heima sem kynnir á þessum tónleikum. Ég var ekki kominn á tónleika til að sjá trúðslæti eða kjánalegan neðanbeltishúmor (sem ég slapp blessunarlega að mestu við, en heyrði síðar af). Vissulega var skondin gamansagan af Johnny Cash og Kris en undir lokin þegar fólk sat í andakt yfir einu seinustu laganna og hlustaði þögult og hugfangið á tónlistina var karlinn (Magnús) að reyna svifla höndunum eins og til að stjórna fjöldaklappi. Það fannst mér vægast sagt ekki viðeigandi.
Ánægjulegt að tókst að fylla höllina. Og fallegt í endann þegar lýsingin minnti á blóðrautt sólarlag.
Allt í allt voru þetta stórkostlegir tónleikar og ég fór af þeim með yl í hjarta og breitt bros á vör. Nú munum við bræður eflaust keppast um að kaupa plötur með kappanum. Ég þakka Vésteini, KK og Kris Kristofferson ógleymanlega stund.

Jæja, mér er víst hollast að ganga til náða núna. Góða nótt.

laugardagur, júní 12, 2004

Ég er kominn í vinnu. Loksins! Dögum mínum sem auðnuleysingja og afætu á samfélaginu er lokið, alla vegana í bili.
Ég vinn núna á Hrafnistu í Hafnarfirði í aðhlynningu, þriðja degi mínum er lokið og ég er núna í helgarfríi. Svo mun ég vinna fimm daga vikunnar og verð á vakt aðra hvora helgi.
So far, so good.

Ég kann vel við mig í vinnunni og þykir sérlega ánægjulegt hve vel er hugsað um fólkið og mikið gert fyrir það. Það syngur og dansar og það yljar manni óneitanlega um hjartarætur að sjá þau skemmta sér svona vel.


-And now for something completely different.
Sönn ferðasaga frá Hafnarfirði til Reykjavíkur

Börn geta verið yndisleg og bjartir sólargeislar í grámóskulegt líf manns. En þau geta líka verið hávær öskrandi og frek bévítans kvikindi.

Ég kynntist seinni sortinni í strætó á leið heim úr vinnu í gær. Dauðuppgefinn eftir langann dag og slitróttan svefn um nóttina steig ég inn í vagninn og sökkti mér í sætið og vonaðist til að geta fengið mér eilítinn hænublund þar til við kæmum á áfangastað. Rétt hjá mér sat kona með tvo krakkagrislinga kerru. Ég sá ekki framan í ófétin svo fyrir mér hljómaði þetta eins og tvíhöfða beljandi ófreskja, spúandi eldi og eimyrju sem konan réði ekkert við. Krakkarnir öskruðu og grenjuðu, (frekjugrenj nota bene og krókódílatár) svo undir tók í sjálfrennireiðinni
Samtalið var eflaust eitthvað á þessa leið:

Kona: (óstyrkri mjúkri röddu): Eh... mannstu eftir svörtu kisunni sem við sáum í dag?
Kornabarn (digurbarkalega): NEI!!! HÚN VAR HVÍT!!!
Seinni hvítvoðungur: HVÍT!!! HRÍÍÍÍÍÍÍÍN!!!!!!
Ég: Urrrrghhhhhhh....
Kona: Svo voru fuglar og kið skoppandi um tún og engi...
Kornabarnið (valdmannslega): NEI!!!!
Hvítvoðungurinn: GRENJJJ
Barnakór: VÆÆÆÆÆÆÆL!!!
Kona: Olfert, viltu fá húfuna? Mannstu eftir rauðu húfunni?
Kornabarn: Já, gemmér, gamla herfa!!! Væææææææl!!!!!
Ég: Gnnnnyyyyyaaaaaaarrrgghhhh!!!

Konan hafði enga stjórn á þessu, börnin voru eins og.. fullir dvergar eða eitthvað (með fullri virðingu fyrir dvergum)! Konan brosti vandræðalega og leit flóttalega í kring um sig. Ég sendi þeim morðaugnaráð og hugsaði þessari indælu fjölskyldu þegjandi þörfina.

Mikið væri nú gott ef börn væru eins og sjónvörp, maður gæti bara skipt um stöð eða sett á mute. Þangað til verða heftiplástrarnir að duga.

En það leiðir okkur að öðru. Ábyrgðin er auðvitað foreldranna. Og það er munur á að vera góður við börn og láta allt eftir þeim. Þetta bar öll einkenni hins síðara. Maður verður einfaldlega að vera ákveðinn stundum, annars læra börnin það að þau fái ALLT sem þau vilja, verða frekari og frekari og umturnast í litlar ófreskjur. Þetta er allt spurning um rétta félagsmótun, börn fæðast ekki sem hálftröll en með röngu uppeldi geta þau orðið það.Og ég get ekki trúað að nokkur foreldri vilji að barnið þeirra verði að litlum þurs, þannig að best er að byrgja brunninn strax áður en barnið fellur í hann.





laugardagur, júní 05, 2004

Það gladdi mig að sjá ljóð í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar á bloggi Ariönu, samið af Herman Bang.

Ég var einmitt þeirrar gæfu aðnjótandi að fá safn ljóðaþýðinga hans í stúdentsgjöf, og þykir mér afar vænt um það.
Magnús Ásgeirson er einstakur þýðandi, eflaust sá besti sem Ísland hefur alið. Og oft taka þýðingar hans frumverkinu fram, er þar hin dásamlega þýðing hans á Síðasta blóminu eftir James Thurber skýrasta dæmið, hann setur það í bundið mál, sem var ekki í upphaflega ljóðinu og af þvílíkri list að undur er á að líta.

Á þeim tíma á þessum síðustu tímum ófriðar, fordóma, falsáróðurs, múgsefjunar og haturs
er gott að hugsa til þess að til voru, og enn eru til menn sem vilja breyta heiminum til hins betra og telja sig geta það með verkum sínum. Jafnvel þó heimurinn hlusti ekki ávallt, að til sé rödd sem talar til fjöldans með bón og áköllun um frið og náungakærleika. Meðal þeirra verka sem hafa haft sterkastan áhrifamátt í friðarboðskap og ádeilu að mínu mati og hafa snert mig mest eru til að mynda Guernica eftir Pablo Picasso, 1984 og Animal Farm eftir George Orwell. Í kvikmyndum er það tvímælalaust lokasenan í The Great Dictator, ræðan þar sem Chaplin kastar frá sér gerfinu og talr frá hjartanu og er það ávarp aldarinnar.
Ég pósta henni eflaust einhvern tíman seinna. Eins mætti nefna Litla prinsinn eftir Anthoine De Saint-Éxupéry og síðast en ekki síst The Pianist eftir Wladyslaw Szpilman. Af íslenskum bókum mætti helst nefna Yfir Ebrofljótið (sem ég er að lesa núna) og Gerplu (sem ég hef reyndar ekki enn lesið).

Þessi dæmisaga og viðvörun Thurbers er eitt eftirlætisljóð mitt og verður vonandi til umhugsunar. Áður en það verður of seint. Því blóðþorsti, bráðlyndi og styrjaldaræði mannsins gæti loks orðið okkur öllum að fjörtjóni. Þó er eilítill vonarneisti ef við varðveitum blómið. Þess má til gamans geta að Utangarðsmenn gerðu lag við þetta ljóð og gerðu vel.
Thurber tileinkaði ljóðið dóttur sinni, í voninni að hennar veröld yrði betri en hans. En í raun er það tileinkað mannkyninu öllu.
Ég kann því miður ekki að pósta myndum á síðuna , því gaman hefði verið að hafa einfaldar en tjáningarríkar myndir Thurbers með. Megi blómið ávallt eiga sér stað í brjóstum mannanna.



Síðasta blómið


Undir XIII alheimsfrið
(eins og fólk mun kannast við),

eftir blóðug öfugspor
endasteyptist menning vor.

Heimsbyggð öll var eydd að grunni
uppi stóð ei tré með runni.

Bældir heimsins blómsturgarðar
brotnir heimsins minnisvarðar.

lægra en dýr með loðinn bjór
lagðist mannkind smá og stór.

Horfnir von með hlýðni þrotna
hundar sviku lánadrottna.

Sótti á bágstatt mannkyn margur
meinkvikinda stefnivargur

Músík-, bóka og myndalaus
manneskjan sat með kindarhus,
gleði-,dáða- og girndarlaus.

Glötunin virtist þindarlaus...

Pótentdátar XIII stríðsins,
tórandi enn á meðal lýðsins
mundu orðið ekki par
út af hverju stríðið var.

Hvort til annars drós og drengur
dreymnum augum renndu ei lengur
heldur gláptust öndverð á
Ástin sjálf var lögst í dá....

Ein síns liðs á víðavangi
vorkvöld eitt var telpa á gangi
og hún fann á sínu sveimi:

Síðasta blóm í heimi

Heim hún stökk, þá sögu að segja,
að síðasta blómið væri að deyja.

Ungum pilti út í haga,
einum fannst það markverð saga.

Saman forðuðu sveinn og meyja
síðasta blóminu frá að deyja.

Í heimsókn komu að heilsa því,
hunangsfluga og kólíbrí.

Bráðum urðu blómin tvö,
og blómin tvö að fjórum,
fimm, sex, sjö... ...
og síðast að breiðum stórum.

Laufgast tók hvert tré og lundur.
(Telpan fékk sér snyrtingu).

Piltinum fannst hún alheimsundur.
Ástin var í birtingu

Börnin tóku að hoppa og hlæja,
hnellin, keik og létt á brá.

Hundar snéru heim til bæja
(hefði verið að ræða um þá).

Ungi maðurinn framtaksfús
fór að byggja úr steinum hús,

og senn fóru allir að hlaða og hýsa,
og heimsins byggðir að endurrísa,

og söngvar lífsins upphófust enn,

og fram komu fiðlarar
og fjölbragðamágusar
og skraddarar og skóarar
og skáld og listamenn,
höggmeistarar og hugvitsmenn
og hermenn!


Og aftur komu ofurstar
og aftur risu upp kafteinar
og majórar og marskálkar
og mannkynslausnarar!

Niðri í dölum, fram til fjalla
fók sér dreifði um veröld alla.

En fyrr en varði fjallahyggja
fór að sækja á dalabyggja.

og þeir sem áttu heima á hæðum
hugann sveigðu að lægri gæðum.

Lýðinn ærðu í lygaskaki
lausnararnir, með guði að baki.
uns eftir skamma hríð
hófst alheimsstríð.

Í stríði því var öllu eytt
ekki neitt lifði af þann lokadóm

nema einn piltur

nema ein telpa

nema eitt blóm



Friður sé með ykkur
-Einar





föstudagur, júní 04, 2004

Með þessa vafasömu stöðu sem virðist komin upp um stöðu þings, forseta og ríkisstjórnar tel ég þjóðráð að við sendum bænaskrár til bræðra okkar í austri og lýsum yfir eindregnum vilja og samhug Íslendinga þess efnis að játast sínum fornu drottnurum aftur á hönd. Við vorum þvinguð undir danskins slekt en var það með samþykki góðra höfðingja og stórbokka Frónarfoldu að við játuðumst undir vorn sanna arfakonung og herra eftir að bændur höfðu flogist á af meiri heift en áður hafði þekkst í nýlendu þeirri sem vorum herra tilheyrir réttilega með guðs lögum og befalíngsbréfum og vér nefnum Ísland. En vegna gjálífis, græðgi og taumlausrar frygðar niðja hans, sem getið er í fróðum bókum sem varðveitt eru í skjalasöfnum hans majestæts, vorum við beygð undir stjórn fláráðra arðræningja og búskussa og máttum þola marga svívirðu og nauð næstu aldir.
Vér hyllum þig, Haraldur V Glücksburg foringi vor og sómaskjöldur. Megi dýrðarröðull þinn lýsa oss til framtíðar og frama undir náðugri leiðstjórn þinni.
Heyr bæn barns!

Fyrir hönd hinnar íslensku þjóðar ritað að Hólatorgi 4 þann þriðja júni á því herrans ári 2004 samkvæmt guðs og þjóðar vilja
Einar Steinn Valgarðsson
stúdent frá lærða skólanum á því sama herrans ári 2004.

fimmtudagur, júní 03, 2004

Nú er forseti búinn að synja lagafrumvarpinu um eignarhald á fjölmiðlum, í fyrsta sinn í 60 ár, síðan lýðveldið var stofnað. Þetta þykja mér miklar fréttir, þó að maður sé á báðum áttum hvernig ber að taka þeim. Það fer hins vegar ekki á milli mála að við lifum á sögulegum tímum og hvernig sem fer verður spennandi að fylgjast með.


Ég finn mig hins vegar knúinn til að leiðrétta Arngrím vin minn og reyndar algengan miskilning á valdi forseta.

Forseti hefur ekki neitunarvald. Neitunarvald (veto) fellst í því að t.d. forseti/þjóðhöfðingi/ræðismaður eða e-r neiti að skrifa undir lög og þá ná þau ekki að ganga.

Forseti hefur ekki veto og hefur aldrei haft. Það er ekki svo að synji hann staðfestingar nái lög ekki fram að ganga, það geta þau gert. Hins vegar getur hann (af því er virðist) skotið málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu (sem myndi þá reyna á í fyrsta skipti hér) og þá getur þjóðin kosið með eða á móti.

Þetta er tvennt sem ekki ber að rugla saman og ég er ekki sammála Agga um að það megi nota þetta orðalag eins frjálslega og hann virðist vilja gera, með fullri virðingu fyrir frænda mínum. Þetta er einfaldlega ekki sami hluturinn og verður það ekkert fremur þó að einhverjir telji það.
Rétt eins og læmingi breitist ekki í rottu þó svo að mér finnist þau lík.

Ég játa það hins vegar að þetta er óheppilegt orðalag, því neitunarvald er þýðing á veto og hér að ofan hef ég reynt að skýra það orð. Og það vald hefur forseti aldrei haft.
Málskotsréttur finnst mér fínt orð, þá fer ekki á milli mála hvað við er átt og verður enginn vafasamur ruglingur á hugtökum sem fela ólíka merkingu og innihald í sér.

Ég óska landsmönnum friðar og velvirðingar

Einar


miðvikudagur, júní 02, 2004

Fiðrildið brýst út úr púpunni. Hrafninn klekst úr eggi og krunkar sína fegurstu söngva. Glymur í hömrum og áin fossar auri. Mildur þytur í rökkvuðum skóg.
Stjarna tindrar í myrkrinu, döggin glitrar. Ljósberi morgunsins.
Kolbíturinn er risinn úr öskustónni og horfir út í dreirrauðan bjarmann. Hann lifir, hann andar hann elskar.
Askan er horfin en glóðin logar í brjóstinu.


Ég er stúdent. Útskrifaður úr lærða skólanum sem hefur verið mér annað heimili og hof í 4 ár. Eins og áður sagði eru eilítið blendnar tilfinningar sem vakna en vil ég gjarnan þakka skólanum, kennurum og ekki síst samnemendum mínum, félögum og vinum frábæra vetur. Ég segi það kannski ekki eins oft og mér bæri en þið eruð mér einstaklega dýrmæt og mér þykir óskaplega vænt um ykkur öll. Og ég óska stúdentum til hamingju (guð má vita hvað ég hef oft óskað sjálfum mér til hamingju, hehe)!

Þessir síðustu dagar hafa einkennst mjög af taumlausri gleði og glaumi. Ég hef tekið eilítinn Leonardo Di Caprio á þetta ala Titanic. Þetta er... yndisleg tilfinning. Gleði, hamingja og náungakærleikur flæðir um mig.
Athöfnin var afar góð sérlega skemmtilegur fyrsti ræðumaður, held að hann hafi verið e-ð 60-ára stúdent. Ég hef alltaf haft gaman af góðum, hlýjum og skondnum endurminningum frá menntaskólaárunum.
Og sú stund að standa þarna með húfuna í þvögunni, með prófskírteinið í hönd, það er stund sem líður æva úr minni. Gaudinn... Faunan... Og allir geislandi eins og nýslegnir túskildingar. ;)

Myndatakan tók dulítinn tíma og allir eflaust orðnir allfrosnir í framan, hélaðar grímur og sultardropi á nefi, hehehe.
Neinei, hún var fín.


Einvalalið var samankomið í veisluna, hún var stórkostleg og aldrei þessu vant þekkti ég flesta, hehe.
Eða svo ég vitni í sjálfan mig:

...hittast á
halir og snótir
Vel er vinafundur.

Fljótt tókust á leikar, kyrjað var hátt við raust og var þá hornið látið ganga svo óminnishegrinn fló okkur í hugarsali.
Mjög var ég þá úr heimi hallur...

Indæl er eftirpartý-stemmning einnig þegar við fóstbræður Aggi, Bragi og Vésteinn auk Heiðu og Elvars sitjum í kvöldrökkri við sumbl og andaktugar hugleiðingar. Glóir á bikarinn og sindra dreggjar.

Partýið hjá Helga var einnig þrumugott og kann ég honum og fjölskyldu bestu þakkir fyrir.
Þaðan haldið í bæinn að mála hann rauðan.
BLOOD-COLORRED!!! Múhúhúhúhahahahaha!
Framhald síðar....
(og lesendur bíða með öndina í hálsinum-kvakk!)

...lítill fugl hvíslar mér svo í eyra að ég sé kominn með svefngalsa. Það að ég sé farinn að eiga í hrókasamræðum við garghænsn gæti verið vísbending þess efnis... ;)


Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.