Það gladdi mig að sjá ljóð í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar á bloggi Ariönu, samið af Herman Bang.
Ég var einmitt þeirrar gæfu aðnjótandi að fá safn ljóðaþýðinga hans í stúdentsgjöf, og þykir mér afar vænt um það.
Magnús Ásgeirson er einstakur þýðandi, eflaust sá besti sem Ísland hefur alið. Og oft taka þýðingar hans frumverkinu fram, er þar hin dásamlega þýðing hans á Síðasta blóminu eftir James Thurber skýrasta dæmið, hann setur það í bundið mál, sem var ekki í upphaflega ljóðinu og af þvílíkri list að undur er á að líta.
Á þeim tíma á þessum síðustu tímum ófriðar, fordóma, falsáróðurs, múgsefjunar og haturs
er gott að hugsa til þess að til voru, og enn eru til menn sem vilja breyta heiminum til hins betra og telja sig geta það með verkum sínum. Jafnvel þó heimurinn hlusti ekki ávallt, að til sé rödd sem talar til fjöldans með bón og áköllun um frið og náungakærleika. Meðal þeirra verka sem hafa haft sterkastan áhrifamátt í friðarboðskap og ádeilu að mínu mati og hafa snert mig mest eru til að mynda Guernica eftir Pablo Picasso, 1984 og Animal Farm eftir George Orwell. Í kvikmyndum er það tvímælalaust lokasenan í The Great Dictator, ræðan þar sem Chaplin kastar frá sér gerfinu og talr frá hjartanu og er það ávarp aldarinnar.
Ég pósta henni eflaust einhvern tíman seinna. Eins mætti nefna Litla prinsinn eftir Anthoine De Saint-Éxupéry og síðast en ekki síst The Pianist eftir Wladyslaw Szpilman. Af íslenskum bókum mætti helst nefna Yfir Ebrofljótið (sem ég er að lesa núna) og Gerplu (sem ég hef reyndar ekki enn lesið).
Þessi dæmisaga og viðvörun Thurbers er eitt eftirlætisljóð mitt og verður vonandi til umhugsunar. Áður en það verður of seint. Því blóðþorsti, bráðlyndi og styrjaldaræði mannsins gæti loks orðið okkur öllum að fjörtjóni. Þó er eilítill vonarneisti ef við varðveitum blómið. Þess má til gamans geta að Utangarðsmenn gerðu lag við þetta ljóð og gerðu vel.
Thurber tileinkaði ljóðið dóttur sinni, í voninni að hennar veröld yrði betri en hans. En í raun er það tileinkað mannkyninu öllu.
Ég kann því miður ekki að pósta myndum á síðuna , því gaman hefði verið að hafa einfaldar en tjáningarríkar myndir Thurbers með. Megi blómið ávallt eiga sér stað í brjóstum mannanna.
Síðasta blómið
Undir XIII alheimsfrið
(eins og fólk mun kannast við),
eftir blóðug öfugspor
endasteyptist menning vor.
Heimsbyggð öll var eydd að grunni
uppi stóð ei tré með runni.
Bældir heimsins blómsturgarðar
brotnir heimsins minnisvarðar.
lægra en dýr með loðinn bjór
lagðist mannkind smá og stór.
Horfnir von með hlýðni þrotna
hundar sviku lánadrottna.
Sótti á bágstatt mannkyn margur
meinkvikinda stefnivargur
Músík-, bóka og myndalaus
manneskjan sat með kindarhus,
gleði-,dáða- og girndarlaus.
Glötunin virtist þindarlaus...
Pótentdátar XIII stríðsins,
tórandi enn á meðal lýðsins
mundu orðið ekki par
út af hverju stríðið var.
Hvort til annars drós og drengur
dreymnum augum renndu ei lengur
heldur gláptust öndverð á
Ástin sjálf var lögst í dá....
Ein síns liðs á víðavangi
vorkvöld eitt var telpa á gangi
og hún fann á sínu sveimi:
Síðasta blóm í heimi
Heim hún stökk, þá sögu að segja,
að síðasta blómið væri að deyja.
Ungum pilti út í haga,
einum fannst það markverð saga.
Saman forðuðu sveinn og meyja
síðasta blóminu frá að deyja.
Í heimsókn komu að heilsa því,
hunangsfluga og kólíbrí.
Bráðum urðu blómin tvö,
og blómin tvö að fjórum,
fimm, sex, sjö... ...
og síðast að breiðum stórum.
Laufgast tók hvert tré og lundur.
(Telpan fékk sér snyrtingu).
Piltinum fannst hún alheimsundur.
Ástin var í birtingu
Börnin tóku að hoppa og hlæja,
hnellin, keik og létt á brá.
Hundar snéru heim til bæja
(hefði verið að ræða um þá).
Ungi maðurinn framtaksfús
fór að byggja úr steinum hús,
og senn fóru allir að hlaða og hýsa,
og heimsins byggðir að endurrísa,
og söngvar lífsins upphófust enn,
og fram komu fiðlarar
og fjölbragðamágusar
og skraddarar og skóarar
og skáld og listamenn,
höggmeistarar og hugvitsmenn
og hermenn!
Og aftur komu ofurstar
og aftur risu upp kafteinar
og majórar og marskálkar
og mannkynslausnarar!
Niðri í dölum, fram til fjalla
fók sér dreifði um veröld alla.
En fyrr en varði fjallahyggja
fór að sækja á dalabyggja.
og þeir sem áttu heima á hæðum
hugann sveigðu að lægri gæðum.
Lýðinn ærðu í lygaskaki
lausnararnir, með guði að baki.
uns eftir skamma hríð
hófst alheimsstríð.
Í stríði því var öllu eytt
ekki neitt lifði af þann lokadóm
nema einn piltur
nema ein telpa
nema eitt blóm
Friður sé með ykkur
-Einar
laugardagur, júní 05, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli