þriðjudagur, mars 01, 2011

Þegar sólin sest í regnhafið gráa /þegar jörðin rís yfir Armstrong City...

Gagnvart sjálfum mér álít ég góða tónlist gulli fegurri og betri. Ekki svo að skilja að ég myndi fúlsa við gullinu en ég myndi ekki vilja eiga heima í heimi án tónlistar og ég efa að nokkuð listform hrífi mig jafn mikið og tónlist, fjöllisthneigður sem ég annars er.

Í dag barst mér fjársjóður af því tagi. Þátturinn Séð frá tungli, frá árinu 2000. Í tilefni af aldamótunum fékk Jakob Frímann Magnússon þá ágætu hugmynd að para saman þrjú ljóðskáld og þrjú tónskáld. Eitt parið átti að taka fortíðina fyrir sem þema, eitt nútíðina og eitt framtíðina. Fortíðina hlutu Mist Þorkelsdóttir og Þórarinn Eldjárn. Verk þeirra nefnist Spinnaminni. Nútíðina fengu Sigurður Pálsson og Þorkell Sigubjörnsson. Verk þeirra nefnist einmitt Nútíð. Framtíðarparið var Jórunn Viðar amma mín og Sjón. Verk þeirra nefnist Séð frá tungli. Ég mundi glefsur úr því en fram að þessu hafði ég ekki séð það né heyrt í ellefu ár og það hefur enn ekki komið út á geisladisk.

Ljóð Sjóns á sér stað í nálægri framtíð. Sögumaður er mennskur tunglbúi, staddur í Armstrong City á tunglinu. Hann dregur fram stjörnukíki og virðir fyrir sér mannlífið á jörðinni. Það kemur á daginn að þrátt fyrir tækniframfarirnar þá heldur lífið áfram sinn vanagang og fólk og dýr eru enn að gera sömu hlutina og áður. Kartöflur eru settar í pott. Segl er fest á bát. Köttur veiðir sér fugl. Piltur og stúlka laumast eitthvað. "Þannig hefur það verið, þannig er það víst, þannig mun það verða. Eða þannig", eins og segir í verkinu. Fyrirsögn þessarar færslu er að auki sótt þangað.

Ljóðið er hrífandi og tónverkið, sem er fyrir kór, klarínettu, píanó og fiðlu er það ekki síður. Flutningurinn þar að auki framúrskarandi. Amma hefur sérstakt lag (orðalag meðvitað (sko, hér gerði ég það aftur)) á að að fangar blæ ljóðs í tónum og er þetta verk engin undantekning, má í raun segja að ljóð og tónlist hvort bæti hvort annað upp og útkoman er sérlega heillandi. Í því er í senn undurfegurð og gáski. Þetta verk sagði Jónas Sen að væri eitthvað magnaðasta verk ömmu minnar og ætla ég ekki að andmæla því. Ég hreifst niður í tær af því að horfa og hlýða á verkið og ég fann tár renna niður kinnina mína. Ég var djúpt snortinn.

Nú langar mig að verkið komi út ásamt öðrum frábærum verkum eftirlætis tónskáldsins míns. Þar má nefna tónlistina úr Síðasta bænum í dalnum, Gátur fyrir konunga (Gestumblindi) við ljóð eftir föður minn, Valgarð Egilsson. Þá á amma skírnarsálm, útsetningu á gamalli drykkjuvísu (Nú er hlátur nývakinn). Stóð ég við Öxará, við ljóð Halldórs Laxness hefur ekki komið út í opinberu Smekkleysuútfáfunni, en er til á disk Dómkórsins.

Heill sé Jórunni Viðar.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.