föstudagur, febrúar 26, 2010

Mannúðarsjónarmið?

Í forsíðufrétt Fréttablaðsins 26. febrúar er rætt við Pál Matthíasson, formann geðsviðs Landsspítalans vegna lokunar deildar 14 á Kleppsspítala, vinnustað mínum til þriggja ára og lítillega við Svein Magnússon, framkvæmdastjóra Geðhjálpar. Í fyrirsögn fréttarinnar er því haldið fram að mannúðarsjónarmið séu helsta ástæða lokunarinnar, en sparnaður hafi flýtt fyrir.
Hvernig er hægt að halda því fram að mannúð hafi verið til grundvallar ákvörðuninni, fremur en sparnaður, þegar fæstir sjúklingar hafa fengið neina staðfestingu á því hvaða búsetuúrræði bjóðast þeim. Ég varpaði sjálfur fram þeirri spurningu í grein minni Mælikvarði menningar (Fréttablaðið 20. febrúar, bls. 22) hvort ekki hefði verið eðlilegra að að tryggja þeim úrræði áður en ákvörðun var tekin, og þætti vænt um að fá svar við henni.

Páll fullyrðir í fréttinni að búið sé að finna meirihluta sjúklinga búsetuúrræði. Vel væri þá að Páll fræddi okkur starfsfólkið og skjólstæðinga um það, þegar þetta er skrifað hefur okkur aðeins verið tilkynnt um tryggð úrræði fyrir 2 skjólstæðinga af 12. Myndi það jafnframt verða til þess að forða starfsfólki og skjólstæðingum frá kvíða og óöryggi, sem Páll nefnir sjálfur að fylgi yfirvofandi breytingum. Hvað starfsólkið varðar, höfum við enga tryggingu á að fá starf innan Landspítalans, hvað sem góðum vonum Páls líður. Sama má segja um búsetuúrræði fyrir skjólstæðinga okkar.
Ég hef ekki séð neinn halda því fram að Kleppur eigi að vera búseta sjúklinga. Gagnrýnin sem kom fram í grein minni var einmitt þetta: að þeim hafi ekki verið tryggð búseta fyrir lokun, og ég benti á að þeir geta ekki verið í eigin búsetu, heldur þyrftu pláss á sambýlum eða hjúkrunarheimilum. Að leggjast í lokun og uppsagnir áður en búsetuúrræði hafa verið tryggð hlýtur að teljast rúlleta með afkomu skjólstæðinga okkar.
Ég vísa á fyrrnefnda grein mína í Fréttablaðinu fyrir þá sem vilja kynna sér nánar þá gagnrýni sem ég hef gagnvart lokuninni, enda fæ ég ekki séð að Páll hafi hrakið nokkuð sem þar er haldið fram eða svarað gagnrýninni með fullnægjandi hætti. Ég vísa einnig á grein Gígju Thoroddsen, "Lokun deild 14 á Kleppsspítala", sem birtist á bls. 18 í Morgunblaðinu 24. febrúar, en eins og hún nefnir í greininni er hún skjólstæðingur á 14 og lýsir þar upplifun sinni gagnvart lokuninni.



Ritað í Reykjavík, þann 16. febrúar 2010
Höfundur er stuðningsfulltrúi á deild 14, hjúkrunar- og endurhæfingardeild á Kleppsspítala.

miðvikudagur, febrúar 24, 2010

Lokun deildar 14 á Kleppsspítala

Ég hvet alla til að lesa grein Gígju Guðfinnu Thoroddsen, "Lokun deildar 14 á Kleppsspítala" sem birtist á bls. 18 í Morgunblaðinu í dag.

laugardagur, febrúar 20, 2010

Mælikvarði menningar

Það er grein eftir mig um geðheilbrigðismál á bls. 22 í Fréttablaðinu í dag og nefnist "Mælikvarði menningar". Lesið hana.

Uppfært 16:11

Það er líka hægt að lesa hana á Vísi.

Uppfært fimmtudaginn 35. febrúar kl. 14:02

Nú er hún komin á Eggina líka.

föstudagur, febrúar 19, 2010

Er lokun deilda/sjúkrahúsa eina leiðin?

Þuríður Rúrí Valgeirsdóttir skrifar áhugaverða grein um heilbrigðismál, sem er á bls. 11 í Morgunblaðinu í gær: "Er lokun deilda/sjúkrahúsa eina leiðin?" Lesið hana.

laugardagur, febrúar 06, 2010

Skríddu ofaní öskutunnuna

Heiðraði forstjóri í höllinni þinni
himinháu úr gleri og stáli og steypu
ég kem ekki á fund þinn til að fá hjá þér neina
fyrirgreiðslu enda yrði víst sneypu-
för heldur gefa þér gott ráð forstjóri
við geðfargi geðfári geðfargi
þínu þungu:
skríddu ofaní ösktunnuna
afturábak með lafandi tungu

Heiðraði tollstjóri í hreiðrinu þínu
höggnu í gler og stál og steypu
ég kem ekki á fund þinn til að fá hjá þér neina
fyrirgreiðslu enda yrði víst sneypu-
för heldur gefa þér gott ráð tollstjóri
við geðfargi geðfári geðfargi geðfári
þínu þungu:
skríddu ofaní ösktunnuna
afturábak með lafandi tungu

Og sólin hún skein á skrúðið blómanna
og skinnið svo mjúkt á stúlkunum ungu
og fuglarnir á trjátoppana
tylltu sér þöndu brjóst
og sperrtu stél
og sungu
skríddu ofaní ösktunnuna
afturábak með lafandi tungu


-- Megas (Magnús Þór Jónsson), af plötunni Drög að sjálfsmorði

föstudagur, febrúar 05, 2010

Einkavæðing heilbrigðiskerfisins & niðurníðslustefna skipulagsauðvaldsins

Ingvar Árni Ingvarsson ritar á Eggina: Einkavætt heilbrigðiskerfi er ómannúðlegt

Vésteinn bróðir ritar á Smuguna: Stöðvum niðurníðslustefnu skipulagsauðvaldsins

Vésteinn sækist eftir 2-3. sæti í forvali Vinstri-grænna í Reykjavík. Forvalið er á morgun og hvet ég fólk til að styðja hann.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.