miðvikudagur, júlí 22, 2009

Í Unuhúsi

Upp þetta dimma sund; þar lá mín leið
mart liðið kvöld;
og sæi ég ljós, þá var sem vanda og neyð
væri nú lyft af heilli öld.

Hér beið mín eftir amstur dags og önn
- eða utanför -
sú fyllíng vona er fæstum verður sönn,
að fá af vini örugg svör,

svo létti vafa af öllum ugg af þér
sem átt þar hlé;
hver þögn fær óm; hvert orð ber epli í sér.
Ymur hið forna saungna tré.

Þar drífa guðir og gamlir prestar inn
og gyðjur lands,
afbrotamenn og börn fá bolla sinn
af besta vini sérhvers manns.

Og Steinar Steinn sem ljóðin las mér fyrr
án lífsfögnuðs,
kom handkaldur uppsundið, drap á dyr
og drakk úr kaffibolla Guðs.*

Ó mildu vitru augu, augna hnoss,
umliðna stund
þess ljóss er brann, sjá enn lýsirðu oss
upp þetta dimma sund.


-- Halldór Laxness


* Laxness lét fylgja sem skýringu í Kvæðakveri að það hefði verið "siður Erlendar að setja fram einu bollapari fleira en gestirnir voru við borðið 'bolla guðs' sem við kölluðum."

Þess má geta að amma mín, Jórunn Viðar, samdi afar fallegt lag við þetta ljóð sem er á sönglagadisk hennar Únglingurinn í skóginum, en lagið syngur Jón Þorsteinsson. Ég hef unað mér síðustu daga við að hlusta á það og önnur lög á disknum.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.