Wacken-minningar og endurfundir eða: LASS ROCK SEIN.
Í ár fer ég í á 20 ára afmæli stærstu þungarrokkshátíð Evrópu, Wacken Open Air í Þýskalandi. Þetta verður önnur för mín á Wacken, fyrri ferðin var 2001.
Meðal þeirra sem ég sá þá spila voru Motörhead, Eiríkur Hauksson með Artch, Saxon, Dimmu Borgir, Rage (ekki þó Against The Machine), Helloween, Therion, Overkill og Sodom. Það munaði líka litlu að við sæum gamla brýnið hann Paul Di'Anno, fyrrum söngvara Iron Maiden, en heyrðum í fjarska lokatóna hans þegar við vorum að tjalda. Ég tapaði gleraugunum mínum á Motörhead, en hinir ágætu þungarokkarar í þvögunni voru það elskulegir að hjálpa til við leitina, og þrátt fyrir að gleraugun reyndust vera í rúst þegar þau fundust þótti mér vænt um viðleitnina. Almennt var mikill andi félagsskapar og bræðralags yfir hátíðinni, og vænsta fólk sem maður spjallaði við, enda þungarokkarar alla jafna valmenni. Sérlega gaman að skemmta sér með drukknum þýskum þungarokkurum, en sá munur er á að í ár get ég drukkið líka (ég var sextán ára snáði og undraheimar ölkorfsins höfðu enn ekki opinberast mér). Mér er sérlega minnisstætt þegar við sáum Eika Hauks í Partýtjaldinu, veifandi íslenska fánanum og jakkanum hans Daða þar sem var slegið saman fánanum og Reykjavíkurmerkinu, stóðum fyrir "crowd-surfi", hrópandi "Eiki! Eiki! Eiki rauði, Gaggóvest!" og þar fram eftir götum. Hann tók reyndar ekki Gaggó Vest en glotti við tönn og lét sér vel líka. Við hittum hann síðan í þvöguni á leið á Motörhead og tókum honum opnum örmum, og var það gagnkvæmt.
Á Motörhead-tónleikum var náunga hleypt upp á svið og bað hann sína heittelskuðu þar um að giftast sér. Það er ekkert sem segir rómantík eins og bónorð á Motörhead tónleikum. Hvernig átti hún auk þess að segja "nei"?
Einnig er minnisstæð hellidemban sem við lentum í á brottfarardegi, og hef ég ekki upplifað annað eins á minni hunds- og kattartíð, enda rigndi nánast hundum og köttum. Sem og tjaldið sem ég tapaði. Kebabarnir og Bradwurst kalla jafnframt vatn fram í munninn, að ógleymdu ölinu (þó að gengið í ár sé reyndar einkar óhagstætt, fjárans fjárferði). Af Iron Maiden bolnum sem ég keypti á Wacken (en þar sést lukkdýr hljómsveitarinnar, Eddie, í djöflaham reka Bruce Dickinson í gegn með þríforki) er það að segja að hann rifnaði fyrir miðju og rifan ágerðist uns ég reif hann í tvennt, að hætti Hulk Hogan, á Maiden tónleikunum í Egilshöll, svo hann varð Iron Maiden vestið mitt í staðinn. Geymdi þetta í smá tíma sem minjagrip en fleygði loks, en hef alveg hug á að fá mér annan. Nú hef ég líka kost á að fá mér alvöru Wacken-armband, en síðast voru þau búin og ég fékk bara eitthvað plastdarsl í staðinn.
Ég er þarna einhvers staðar í skaranum í tónleikaflutningi eftirfarandi laga:
Dimmu Borgir - Spellbound
Motörhead - Ace of Spades
Saxon - The Eagle Has Landed
Sodom - Code Red
Therion - Wine of Aluqah
Hér er svo ljósmynd frá tónleikum Artch undir forystu Eiríks Haukssonar í partýtjaldi Wacken árið 2001. Það sést í hnakkann á Vésteini bróður í Motörhead-gallavesti en það er ég sem held á íslenska fánanum:
...
Ég flýg út á sunnudag. Meðal þeirra sem ég er forvitinn að sjá (auk endurfunda við Motörhead, Saxon og e.t.v. Rage) eru Onkel Tom Angelripper (en hann sá ég síðast spila með Sodom), Anthrax, Heaven and Hell (Black Sabbath með Ronnie James Dio), Machine Head, Amon Amarth, In Flames, Bon Scott (AC/DC-tributeband, hvað get ég sagt? Ég elska AC/DC). Gæti einnig alveg hugsað mér að tékka á UFO, Napalm Death og In Extremo, GWAR... þarf bara að sjá hversu miklu ég næ, því vel getur verið að einverjar sveitir rekist á. Næ svo nokkrum dögum í Köben áður en ég held heim.