þriðjudagur, apríl 28, 2009

Glæpir og pópúlismi

Ísrael, Egyptaland, Bandaríkin og ESB halda Gaza áfram í herkví og hjálpargögnum er haldið frá fólkinu. Matur, lyf, teppi og önnur gögn sem hugsuð voru fyrir 1,5 milljón íbúa Gaza, hrannast upp og eru geymd í vöruhúsum, á bílastæðum, leikvöngum og á flugstöðum og fá ekki að fara inn á Gaza, og í milltíðinni rotna matvælin. Mannréttindasamtök víðs vegar um heim hafa þegar fordæmt þennan hrottaskap og bent á þátt fyrrnefndra ríkja í honum, hvernig þetta stríðir í senn gegn alþjóðasamþykkt frá 2005 um ferða- og aðgangsfrelsi og hvernig þetta brýtur auðvitað gegn almennum mannréttindum Palestínumanna, sem eru þegar fótum troðin á degi hverjum. Meira um þetta hér.

Landránsbyggð er að rísa í A-Jerúsalem, á herteknu landi Palestínumanna (hertekið í Sex daga-stríðinu, árið 1967) í trássi við alþjóðalög, og, eins og talsmaður Peace Now bendir á, þá virðist þetta vera gert til þess að grafa undan kröfu Palestínumanna um að fá A-Jerúsalem sem höfuðborg, ef sjálfstætt ríki Palestínumanna yrði að veruleika.

Uri Avnery skrifar um ráðstefnuna um rasisma sem var haldin í Genf, ummæli Mahmoud Ahmadinejad þar í garð Ísraels og ber saman við Avigdor Lieberman. Avnery vill meina að þeir þrífist hvor á öðrum pólitískt; Ahmadinejad nýtir sér hótanir Ísraela og Lieberman nýtir sér kjarnorkuáætlanir Írans. Greinin nefnist Can Two Walk Together?. Ég minni jafnframt á eigin skrif um Ahmadinejad, hér neðar á síðunni.

Það er annars gaman frá því að segja að ég hef nú tekið sæti í stjórn Félagsins Ísland-Palestína.

Loks skrifar Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og formaður félagsins Ísland-Palestína greinina "Enginn friður án Hamas", sem birtist á bls. 28 í Morgunblaðinu í dag, og ég hvet fólk til að lesa.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.