þriðjudagur, desember 30, 2008

Stöðvið blóðbaðið á Gaza - Yfirlýsing frá FÍP


Hér á eftir fer yfirlýsing samþykkt af stjórn Félagsins Ísland-Palestína sunnudaginn 28. desember. Yfirlýsingin var birt daginn eftir og send til fjölmiðla, stjórnmálaflokka og félagasamtaka.


Grimmdarlegt framferði Ísraelshers gagnvart varnarlausum íbúum herteknu svæðanna á Gaza hefur náð nýju hámarki í fjöldmorðum síðustu daga. Með loftárásum árásarþyrla, orrustu- og sprengjuflugvéla hafa nú þegar 300 manns verið myrtir og árásirnar halda áfram. Um sjö hundruð manns hafa særst og búast má við að tala fallinna og særðra eigi eftir að hækka eftir því sem tekst að grafa fólk upp úr rústum heimila sinna og annarra bygginga. Konur og börn hafa ekki verið undanþegin í þessum grimmilegu árásum. Skortur er á lífsnauðsynjum, lyfjum og lækningatækjum, rafmagni og vatni. Aðstæður þessar sem fara stöðugt versnandi vegna umsáturs Ísraelshers um Gazaströnd gera hjálparstarfi og heilbrigðisþjónustu erfitt fyrir.

Samkvæmt yfirlýsingum ísraelskra ráðamanna er þetta aðeins byrjunin á nokkurra vikna herferð sem hefur lengi verið í undirbúningi og því fráleitt að skella skuldinni á fórnarlambið eins og reynt hefur verið í öðrum yfirlýsingum Ísraelsstjórnar. Heimasmíðaðar Qassam-flaugar andspyrnuhópa sem skotið hefur verið frá Gaza og inn í Ísrael eru tylliástæða fyrir þeim miskunnarlausu fjöldamorðum sem heimurinn horfir nú uppá. Það hafa 1-2 manns fallið á ári fyrir heimasmíðuðu flaugunum sem geta sannarlega valdið hræðslu í þeim byggðum sem þær ná til en eru, í samanburði við ísraelsku vígvélina, lítið meira en máttvana viðbrögð við ofurefli.

Hlé hafði verið í nokkra mánuði á skotum Qassam-flauga þegar gripið var til þeirra aftur i kjölfar árása Ísraelshers á Gaza kosninganóttina sem úrslit urðu kunn í forsetakosningum Bandaríkjanna og augu heimsbyggðarinnar beindust að. Það var einum og hálfum mánuði áður en vopnahléð rann út. Ísraelsstjórn hafði hvorki virt hernaðarhluta vopnahléssins og enn síður þann hluta þess sem átti að vera að aflétta umsátrínu. Þessu vopnahléi var því sjálfhætt.

Það var kaldranalegt að heyra utanríkisráðherra Íslands í Ríkisútvarpinu leggja fórnarlömb stríðsins og árásaraðalann að jöfnu með því að tala um deiluaðila sem báðir beri ábyrgð. Þó hafði hún áður lýst árásum Ísrelshers á Gazasvæðið sem óverjanlegum. Nær hefði verið að lýsa eindreginni samúð og stuðningi við hrjáða íbúa Gazasvæðinsins en helmingur íbúa þess eru flóttafólk sem mátt hefur bíða lausnar á sínum vanda í 60 ár. Íslenskum stjórnvöldum ber að krefjast þess af Ísraelsstjórn að hún láti af árásarstefnu sinni og fjöldamorðum á Gazasvæðinu, ella verði samskiptum við Ísraelsríki slitið þar til stjórnvöld þar í landi sýni vilja í verki til að fara að alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna og hætti þegar í stað öllu árásum á palestínska íbúa herteknu svæðanna.

Við krefjumst þess að Ísraelstjórn stöðvi fjöldamorðin á Gaza þegar í stað

Við krefjumst þess að umsátrinu um Gaza verði nú þegar aflétt

Við krefjumst þess að hernámi Ísraels á palestínsku landi linni

Við krefjumst þess að réttur palestínsku þjóðarinnar til sjálfsákvörðunar verði virtur

Við krefjumst þess að réttur flóttafólks til að snúa heim aftur verði virtur í samræmi við alþjóðalög um mannréttindi og mannúð.

Við krefjumst þess að samskiptum við Ísraelsstjórn verði slitið þar til Ísrael lætur af árásarstefnu sinni.
- Stjórn Félagsins Ísland-Palestína

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.