þriðjudagur, september 09, 2008

Großvater Sobbeggi von Hali

Ég las í e-u blaðinu að nú komi einhverjar bækur Þórbergs Þórðarsonar út á þýsku. Það tel ég í sjálfu sér gleðiefni, enda hef ég hrifist mjög af Íslenskum aðli og Ofvitanum og líkað vel það sem ég hef gluggað í annað eftir hann. Það sama má segja um endurmenntunarnámskeiðið um Þórberg og Gunnar Gunnarson, sem ég sat undir handleiðslu Halldór Guðmundssonar, sem síðar skrifaði bókina Skáldalíf um þá tvo.
Ég óska þýðandanum alls velfarnaðar, en get ekki sagt að ég beinlínis öfundi hann. Þórbergur hafði það einstakt tungutak að það hlýtur að teljast vægast sagt mikil áreynsla að ætla að glíma við textann svo að tilfinningin skili sér, stílsnilld og að þetta sé jafnframt á góðri þýsku. ég vona líka að fari ekki fyrir Þórbergi eins og Gunnari Gunnarssyni með Sælir eru einfaldir. Hún hlaut ónefnin Der Hass des Páll Einarsson og Sieben Tages Finsternis á þýsku. Var enda ekki endurútgefin, að sögn Gunnars sjálfs.
Hann mátti hins vegar vel við una á þeim árum, enda var hann þá vinsælastur í Danmörku og Þýskalandi.
Það er oft sagt að það muni alltaf tapast eitthvað í þýðingu, og jafnframt sagt að þýðandinn sé ekki síður höfundur að útkomunni en upphaflegi höfundurinn. Mig grunar að slíkt geti sérlega átt við í þessu tilfelli. Sjálfur er ég ekki viss um að ég myndi treysta mér til að þýða ámóta verk, fremur en Finnegan's Wake eftir James Joyce (fremur færi ég í sleik við skúnk en að þýða það torf, enda er bókin martröð hvers þýðanda) , þó ég hafi amatörast aðeins í þýðingum.
Sérstaklega myndi ég ekki öfunda þýðanda Þórbergs af að þurfa að snara þessum einstöku upphafsorðum Bréfs til Láru:

Reykjavík, 15. nóvember 1923.

I.

Mín góða og skemmtilega vinkona!
Gegnumsýrður af heilögum innblæstri sem blóðmörskeppur í blásteinslegi, titrandi af hamstola lyftingu, vaggandi af ómþýðum englaröddum, er til mín hljóma gegnum gengishrun og öreigahróp vorrar vesölu jarðar, tvíhendi ég pennastöngina þér til dýrðar, þér til eilífrar dýrðar og vegsömunar, sáluhjálpar og syndakvittunar, hvar af þú ljómar og forklárast eins og sólbakaður saltfiskur frammi fyrir lambsins stól.
Loks hlotnast þér blessun sú, sem þú hefir beðið brúðkaupsklædd alla æfi, andríkt sendibréf, ritlist snillingsins, skemtun fræðimannsins, hugarflug skáldsins, vizka vitringsins, dulspeki draumhugans, hrollur hins hugsjúka, víðsýni vegfarandans, mælska hins málsnjalla manns, hlátur húmoristans, bituryrði háðfuglsins, hittni hermikrákunnar, sýnir hugsjónamannsins, stormhugi stjórnmálamannsins, víðhygli alheimsborgarans, átölur umbótamannsins, máttur mannvinarins, aðfinslur alvörumannsins, hugrekki hins hreinskilna, rödd hrópandans í eyðimörkinni, ylur kærleikans, raust réttlætisins, vandlæting sannleikans, mál spekinnar, niður aldanna, þytur eilífðarinnar. Amen.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.