föstudagur, maí 30, 2008

Condoleeza Rice, píningarbekkur á Austurvelli og fordæming pyntinga

Í dag, föstudaginn 30. maí kemur Condoleeza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Íslands í stutta heimsókn og fundar með íslenskum ráðamönnum. Flestum ætti að vera kunnugt um hvernig Bandaríkjastjórn hefur grafið undan mannréttindum í nafni "Stríðsins gegn hryðjuverkum" og beiting og réttlætingar þeirra á pyntingum.
Ég gerði fyrirhugaða heimsókn Rice að umtalsefni í færslu minni 9. maí síðastliðinn, sem fók getur lesið og ég bendi lesendum jafnframt á þessar greinar á fridur.is "Píningarbekkur á Austurvelli" og "Condoleeza Rice ber ábyrgð á pyntingum fanga".

Á fridur.is segir m.a.:

... notkun Bandaríkjahers og samherja hans á pyntingum, sem sætt hafa alþjóðlegri fordæmingu. Þekkt pyntingaraðferð af þessu tagi felst í því að binda fanga við planka og hella vatni yfir vit hans til að skapa drukkunartilfinningu. Bandarísk stjórnvöld þræta fyrir að sú aðferð teljist til pyntinga.

Samtök hernaðarandstæðinga munu standa fyrir sýnikennslu með vatnspyntingarbekk á Austurvelli kl. 17 á föstudag. Condoleeza Rice er sérstaklega boðin velkomin þangað til að kynna sér hið raunverulega eðli þessarar píningaraðferðar. Sama máli gegnir um íslenska ráðamenn.

Jafnframt hvetja Samtök hernaðarandstæðinga íslensk stjórnvöld til að nota tækifærið og fordæma pyntingar í viðræðum við bandaríska utanríkisráðherrann. Jafnframt er brýnt að ráðist verði í óháða rannsókn á umfangi þeirra pyntinga sem Bandaríkjaher hefur staðið fyrir og að hlutur fórnarlamba þeirra verði réttur. Ísland á að skipa sér í hóp þeirra ríkja sem standa vörð um frið og mannréttindi í stað þess að grafa undan þeim.


Sjálfur hvet ég alla sem vettlingi geta valdið til að mæta og ég vonast til að sjá sem flesta. Við þetta hefði e.t.v. mátt bæta að stjórnvöld ættu að sjá sóma sinn í að láta rannsaka fangaflug um íslenska lofthelgi. Því svaraði Ingibjörg Sólrún til að ekki væri "tilefni til þess".

Hvenær ætli sé tilefni, ef ekki í þessu tilfelli? Gæti hæstvirtur utanríkisráðherra kannski svarað því?

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.