mánudagur, september 10, 2007

Áfangasigur í Bi'lin og tónlistarpælingar

Uri Avnery skrifar að vanda góða grein um áfangasigur sem unnist hefur í palestínska þorpinu Bil'in á Vesturbakkanum. Bil'in hefur orðið að táknmynd fyrir andspyrnu gegn hernámsmúrnum í Palestínu. Samstaða og þrautsegja mótmælendanna sem hafa mótmælt friðsamlega á hverjum föstudegi í 135 vikur á aðdáun skilið, sérstaklega þegar litið er til þess að friðsamleg mótmæli hafa aðeins verið frá þeirra hálfu en hermenn hafa mætt þeim með barsmíðum, gúmmíkúlnaskothríð og táragasi, og handsamað marga.
Nú nýlega úrskurðaði Hæstirétturinn í Ísrael hluta múrsins ólöglegan og litlum hluta lands var skilað. Á sama tíma hefur hæstirétturinn hins vegar lagt blessun sína á aðra landtökubyggð sem reist var á landi Bil'in og hætta er á því að þessi litla aðgerð geti slegið ryki í augu fólks og virkað sem réttlæting frekara landráns. Lítill steinn í stórum múr, mætti segja, og er ég þá minnugur Pink Floyd. en þá á ég bæði við múrinn og þá hughyggju og hernám sem hann stendur fyrir, en það heldur áfram og fer hríðversnandi.
Uri Avnery segir að í þessari örvæntingarfullu báráttu sé jafnvel lítill sigur mikilvægur. Baráttunni er hins vegar langt í frá lokið. Það er bæði nauðsynlegt að brjóta niður veraldlega og huglæga múra og það er það sem mótmælendurnir í Bil'in og víðar berjast fyrir. "Écrasez l'infamme!", eins og var kjörorð Voltaire. "Mölvið hana, bölvaða!"
Fyrir þá sem vilja fræðast meira um múrinn bendi ég á þessa ágætu samantekt Gush Shalom.



And now for something completely different:

Eftir á að hyggja hefði ég e.t.v. átt að fara á tónleikana með Chris Cornell. Mín góða vinkona, Heiða gaf tónleikunum þrjár stjörnur í Mogganum. Þótti skorta þetta „hættulega“, „óbeislaða“ rokk, þetta hafi verið einum of slípað, session-legt hjá bandinu en best hafi tekist upp þegar Cornell tók lög kassagítar. Þetta virðist því hafa verið með snyrtimennskuna í fyrirrúmi en ekki nógu væld, svo ég vísi í kvikmyndina Með allt á hreinu. Ekki það, ég átti mjög ánægjulegt kvöld á Hressó og Highlander með kórfélögum.
Ég þarf að hlusta meira á kauða, er meira svona „casual fan“. Þekki einstaka lög með Soundgarden og sóló, hef náttúrulega heyrt og séð hitt og þetta í sjónvarpi, útvarpi og í gítarpartýum og hefur líkað vel. Gæti þó aðeins raulað She‘s Going To Change the World og Black Hole Sun.

Hef annars mestmegnis verið að hlusta á Tom Waits undanfarið. Used Songs, Franks Wild Years og The Heart of Saturday Night auk Russian Dance af plötunni The Black Rider, en mætti þó alveg fara að spila þá síðustu meira. Keypti mér líka Alice, Blood Money og Bone Machine úti og hafa þær allar verið í spilun. Platan Innuendo með Queen og margvísleg lög Nick Cave hafa einnig hljómað í eyrunum.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.