þriðjudagur, júní 26, 2007

Eitt og annað

Tilvitnanirnar eru í fokki. Djöfull þoli ég ekki þetta andskotans helvítis bloggerdrasl.

Í gær reit ég eilítinn pistil um ástandið í Palestínu, sem ég er að hugsa um að senda e-um fjölmiðlinum. Mun svo væntanlega skella honum hingað inn í kjölfarið.

Eins og stendur er ég að lesa Platero og ég: Harmljóð frá Andalúsíu 1907-1916 eftir spænska skáldið Juan Ramon Jimenez í þýðingu Guðbergs Bergssonar, en ég spændi jafnframt í mig War's End - Profiles From Bosnia 1995-1996 eftir meistara Joe Sacco (höfund Palestine og Safe Area Goražde) sem ég rakst á, mér til ánægju á bókasafninu í gær. Fyrri söguna í bókinni skrifaði hann um dvöld sína í Bosníu og kynni hans af rokkaranum, listamanninum og stríðshetju samalanda þess síðarnefnda, Soba og öðrum íbúum Sarajevo. Seinni sagan segir frá því þegar Sacco og kollegar hans í fjölmiðlabransanum eru á höttunum eftir Radovan Karadzic, sem þá er eftirlýstur fyrir stríðsglæpi.

Mig langar svo þónokkuð að lesa Zadig, eða örlögin eftir Voltaire sem var að koma út sem Lærdómsrit hins íslenska bókmenntafélags. Miðað við hversu ég hafði gaman að Birtíngi þá á ég von á því að mér gæti líkað þessi. Annars hefur mér alltaf þótt þessi útgáfa sérlega snotur.
Það sama má svo segja um nýútkomna bók Khaleds Hosseini, A Thousand Splendid Suns dauðlangar að lesa hana líka.

Ég keypti mér nýju bókina hans Hugleiks Dagssonar, Ókei, bæ um daginn og finnst hún bráðskemmtielg, rétt eins og mér hfur þótt með aðrar bækur Hugleiks. Ég er ekki frá því að honum láti betur að skrifa lengri sögur, þó einrömmungarnir séu oftast góðir líka. Svo þykir mér Hugleikur njóta sín sérlega vel á sviði, eins og sannaðist með verkunum Forðist okkur og Legi, en mér er til efs að ég sjá margar sýningar á árinu sem munu toppa þá síðari í huga mínum.

Lag dagsins að þessu sinni er Gimme Shelter með The Rolling Stones af plötunni Let It Bleed.

Ég rakst á ágæta tilvitnun í Voltaire á netinu sem ég snaraði yfir á íslensku og læt fljóta hér:

„Það tekur tuttugu ár fyrir mann að rísa upp úr grænmetisástandinu sem hann er í í legi móður sinnar og upp úr hinu hreina ástandi dýrsins sem er hlutskipti frumbernsku hans, yfir að ástandinu þegar þroski skynseminnar tekur að birtast. Það hefur þurft þrjátíu aldir til að fræðast um uppbyggingu hans. Það þyrfti heila eilífð til að kynnast nokkru um sál hans. Það þarf ekki nema örskotsstund til að drepa hann.“

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.