fimmtudagur, mars 15, 2007

Óljóð

Á þessari rímlausu skeggöld
Þegar strútar stinga höfðinu niður í sprengisand
og mörgæsir fljúga gegnum nálaraugað
þegar kyrtilskrýddur fóðurmeistari
vélmjólkar aumingja búkollu gömlu
Þegar barnið er framleitt í tilraunaglasi
Þegar náðarmeðulin eru orðin togleður og hanastél
sálin þota hjartað kafbátur
Hvernig skal þá ljóð kveða


Þér hafið heyrt að einn segir
ljóð skal vera rímað heilsteypt myndríkt
gætt ljúfri hrynjandi
þér hafið heyrt að annar segir
ljóð skal not mean but be vera sjálfu sér nóg
þér hafið heyrt að sá þriðji segir
ljóð skal vera slíkur helgidómur að komandi
kynslóðir geymi það í eldtraustum skáp að
minnsta kosti í þúsund ár


en vér lifum á erfiðum tímun
vor gamli veruleiki er að leysast upp í skothríð
ósýnilegra frumeinda
vér erum blásnir út í hlægilegar stærðir
oss er hnoðað saman í grátlegar smæðir
og svo er ráðgert að kveikja í öllu saman


hver var að tala um náttúrufegurð
hver var að tala um lífgrös dalanna víðerni
kjalar hátign goðalands
hver var að tala um listaverk
hver var að tala um heimsljósið reginsundið
helreiðina
vitið þér ekki mínir elskanlegu að það er setið
á svikráðum við þetta allt


kannski er hægt að ríma saman já og nei
kannski er hægt að skapa myndheild úr ringulreið
kannski er hægt að gæða djöfullegustu pyndingar
ljúfri hrynjandi
en hvern gleður hin sjálfumnæga verund ljóðsins
þegar sprengjan hefur breytt jörð og mannkyni í
einn logandi hvell


veit ég vel að eitt sinn skal hver deyja
þetta er ekki hinn sjálfhverfi ótti við
persónulegan aldurtila
ég er ekki hræddur ég er hryggur og reiður
þetta eru mótmæli þetta er krafa
ég mótmæli því að jörðin sé gerð að leikhnetti
ábyrgðarlausra svefngengla
ég krefst þess að vökumenn slái trumbur


og þér ungu skáld hví vantreystið þér orðinu
hví er vitund yðar í feluleik af ótta við
gengishrun og gjaldþrot
er ekki kominn tími til að leita í grasinu
eða eru myntfalsararnir búnir að gleypa hinar
gullnu töflur
erum vér þá að verða að mállausum betlurum
og vor hrímhvíta móðir að skækju


æ fyrirgefið ég gleymdi að kjarnorkuljóð verður
einungis skynjað að vetnislist fáum vér
eigi skilið’ í þessu lífi
vér megum ekki meina neitt með því að vera
markmið er einfeldni boðskapur móðgun
nei þá er betra að fremja sjálfsmorð þegjandi
og hljóðalaust


ég hlýt því að bjóða yður togleður og hanastél
skjóta þotunni upp í yfirvitundina
sökkva kafbátnum niður í undirvitundina
unz allur tilgangur er úr sögunni
unz berskjaldað lífið og tæknibrynjaður dauðinn
sættast á eilífa þögn
og fortíð og nútíð og framtíð mætast í hinu
óskiljanlega núlli



--Jóhannes úr Kötlum, Óljóð, 1962

1 ummæli:

Kristján Hrannar sagði...

Þetta er ótrúlegur kveðskapur eftir eitt af mínum uppáhalds skáldum. Takk kærlega fyrir að birta þetta.

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.