Sitt sýnist hverjum...
Það er víst óhætt að segja að opna bréfið sem ég skrifaði til íslenskra fjölmiðla um ástandið í Palestínu og birtist á blaðsíðu 25 í Morgunblaðinu á miðvikudag hafi vakið blendin viðbrögð.
Alla jafna hef ég fengið jákvæð viðbrögð frá þeim sem yfirleitt hafa haft orð á henni. Nú hef ég hins vegar fengið tvö bréf send í pósti. Annað er átta blaðsíðna bréf frá einhverjum sem kallar sig “R” og gefur upp e-mailið rolfurjo@hotmail.com. Í sem stystu máli lýsir hann fyrir mér að hann hafi alist upp sem múslimi en kastað trúnni þegar hann sá hversu „sjúkleg og illskufull“ þessi trúarbrögð eru“. Svo heldur hann áfram að tala um illsku islam og sér fyrir sér stórkostlegt múslima-samsæri gegn Vestrænu samfélagi, þar sem virðist stefnt að heimsyfirráðum. Nú veit ég að það er klisja og jafnvel rökvilla að segja þetta, en ég gat ekki annað en hugsað til þess sem Adolf Hitler hafði að segja í Mein Kampf, og raunar víðar um hið gyðinglega samsæri.
Hitt bréfið var frá Ólafi Jóhannssyni, félaga í Félaginu Zion – Vinir Ísraels. Kallar hann greinina mína „illskeytta og ómálefnalega“. Ekki sé ég hvernig hann fær það út. Segist hann gruna að ég sé hallur til vinstri, en segist ekki ætla að skamma mig fyrir það. (*hóst*, persónuárás?*hóst*). Það var nú ágætt. Ég slepp þá við flengingu í þetta sinn.
Hann talar um hryðjuverkplott Palestínumanna og varnarvibrögð Ísraels. Einnig um spillingu í Fatah, og hryðjuverk Hizbollah og óvandaðann fréttaflutning á Vesturlöndum sem er víst voða anti-Ísrael.
Ég minntist hvorki á Hamas né Hizbollah í greininni, nema þar ég sagði að átökin við Hizbollah í Líbanon væru nátengd átökunum í Palestínu.
Annars skynjaði ég að bréfritara virtist nokkuð niðri fyrir. „Hvernig veit ég þetta? Áður en þú fæddist fór ég að kynna mér mál Ísrael/Palestínu“. Á ég að fá minnimáttarkennd út af því að ég er yngri en hann? Er það sönnun á fróðleik hans að ég var ekki fæddur þá? Þetta þykir mér léleg rökemdafærsla og fremur bera vott um persónuárás. Vegna þess að ég er ungur get ég ekki vitað neitt í minn haus.
Hann spyr mig hvaðan ég hef heimildirnar frá Heilbrigðisráðuneyti Palestínu, og er mér ljúft og skylt að svara því: Heimildina fékk ég úr grein eftir Rami Almeghari, sem skrifar frá Shouka á Gaza ströndinni. Biritst þessi grein undir flokknum Live from Palestine á heimasíðu Electronic Intifada, slóðin á hana er eftirfarandi:
http://electronicintifada.net/v2/article5527.shtml
Þar segir svo enn fremur um greinarhöfund:
Rami Almeghari is currently a Senior Translator at the Translation Department of the Gaza-based State Information Service (SIS) and former Editor in Chief of the SIS-linked International Press Center's English site. He can be contacted at rami_almeghari@hotmail.com
Svo er Ólafi auðvitað ekkert til fyristöðu að hafa samband við heilbrigðisráðuneytið í Palestínu, ef hann vill sannreyna þessar tölur.
Í þessu sama umslagi fylgir svo grein um illsku Hizbollah, ritaða af Gísla Frey Fefesyni, tekin af ihald.is. Þar skrifar hann um voðaverk Hizbollah og Vestræna fjölmiðla (The biased liberal media, innskot mitt) og setur út á nýlega grein Ögmundar Jónassonar „sem ég held að hati Ísrael, eins og þessi grein segir til um“ . Hann kallar einnig Dr. Jón Orm Halldórsson, „SJÁLFSKIPAÐAN sérfræðing“, með stórum stöfum og feitletri. Já, svo gleymi ég næstum því að Ólafur bendir mér á þátt sem heitir Ísrael í dag, sem verður á Omega á Laugardag. Sjitt, hvað ég má ekki missa af því.
Í þessu umslagi fylgir loks 3 eintök af Ísraelsfréttum, sem er málgagn féalgsins Zion- Vinir Ísraels.
Ansi magnað...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli