laugardagur, apríl 15, 2006

„Hið illa afl“ sem gerir gott



Nú er ég ánægður með hið fyrrum „illa heimsveldi” (hvað er það núna? „Illa landið“?) og „öxulveldi hins illa“, hvað heit þeirra um fjárstyrk til Palestínu varðar. Það er þá kannski spurnig um „hið illa afl sem gerir gott“ líkt og í Fást Goethes, eða Meistaranum og Margarítu?
Hins vegar óttast ég að þetta muni samt duga skammt. Fyrir það fyrsta tel ég að jafnvel þótt þau ríki sem hafa heitið Palestínu stuðningi efni loforð sitt muni það ekki geta bætt fyrir það níðingsverk sem Ísrael, ESB, Bandaríkin og Kanada hafa unnið í sameiningu. Að útgjöldin muni aldrei ná þeirri upphæð sem þeir fengu áður en skorið var á fjárútgjöld til þeirra. Eins veit maður ekki hversu lengi þessar þjóðir munu sjá sér fært eða telja sér í hag að styðja Palestínu, né hvað það verður upp að miklu marki.

Manni er annars spurn, ofan á önnur mannréttindabrot Ísraela, sem ávallt virðist litið framhjá, hvers vegna er það ekki fordæmt að Ísrael er með þessu enn einu sinni að brjóta gegn Genfarsáttmála? Þá á ég við að samkvæmt honum er hernámsþjóð skylt að tryggja lífbjörg hernumdu þjóðarinnar. Það að fjársvelta þjóðina getur vægast sagt ekki samræmst því ákvæði.

Ég held að ég þurfi sjálfur ekki að fjölyrða lengi um mína afstöðu gagnvart fjársveltinu. Að hún sé flestum lesendum ljós. Í sem stystu máli á ég vart orð yfir hversu svívirðilegur glæpur, að ekki sé sagt heimskulegur, mér þykir það vera að fjársvelta heila þjóð, sem telur 9 milljónir og er nú þegar sliguð undir járnhæl viðurstyggilegs ólöglegs hernáms, vegna þess að ráðamönnum í Ísrael, Bandaríkjunum, Kanada og þar með ESB líkar ekki lýðræðislega kjörnir fulltrúar þeirra. Enn fremur tel ég víst að það að fremja þetta níðingsverk og loka á sama tíma augunum fyrir þeim ítrekuðu mannréttindabrotum sem Ísraelar beita Palestínumenn muni ekki leiða til friðar. Það mun fremur , að öllum líkindum kynda undir frekari hryðjuverk í Ísrael, sem verður „svarað“ með frekari árásum, uns þriðja Intifadan brýst út. En það er einnig ekkert sem útilokar að hryðjuverk muni þá í kjölfarið aukast í Bandaríkjunum, Kanada og í Evrópu. Nú fer tuggan "lýðræðið í Mið-Austurlöndum" fyrir lítið. Hvað þá tuggan um stríð gegn hryðjuverkum". Réttlátar viðræður, þar sem fallið er frá einhliða kröfum, báðir aðilar koma að nokkru til móts við hinn, án þess að sé endalaust níðst á öðrum aðilanum, og hann fá ekkert fyrir sinn snúð, munu einar skila árangri. Þetta fjársvelti mun aðeins leiða til frekari hörmunga.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.