Misjöfn eru morgunverkin. Ég vaknaði einhvern tíma um 11-12 leitið og rumdi í svefnrofunum sem móðir mín og bróðir vildu reka mig á lappir. móðir mín fór svo út og stuttu seinna hringdi vekjaraklukkan. Ég slekk á henni og legst aftur í bælið, til að “hvíla mig” aaaðeins lengur. Ekki löngu síðar hringir síminn, ég læt hann hringja dálítið uns ég svara. Það er þá mamma, minnir mig á að fara á fætur og að ég hafði lofað að moka heimreiðina. Þegar á fætur var komið blaðaði ég í hinu og þessu og gerði þetta venjulega, sturta, föt, kaffi og appelsína. Svo fór ég út að moka. Það var gott að nú var hláka, í stað frostins sem verið hafði. Ég hugsa þó að sorphirðirinn sem kom hér í dag hefði þegið það að ég hefði verið búinn að moka þegar hann kom, en það var áður en ég var klæddur.
Sem ég er að moka, og gengur ágætlega, brýt ég líka ís með skóflublaðinu. Fer þá ekki betur en svo að skóflublaðið fýkur frá skaftinu og hafði tréð brotnað. Þá eru góð ráð dýr. Það er aðeins ein önnur skófla, og er fremur lítil, fremur stunguskófla. En allt er hey í harðindum, og tek ég nú til við að bogra yfir þessu, því skaftið er einnig lítið á skóflunni. Ýmist beygi mig eða krýp yfir þessu þar til það er búið, hugsandi gremjulega hve hraðar þetta hefði gengið ef skaftið hefði ekki brotnað á hinni skóflunni. Hamaðist og djöflaðist þá þeim mun meira. Því dagsverki er nú lokið og gekk furðu fljótt. Undirritaður er hins vegar dálítið aumur í baki eftir.
fimmtudagur, janúar 19, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli