miðvikudagur, maí 04, 2005

Tony Blair vill láta þróa ný kjarnavopn. Já, það vill hann. Fær mann til að hugsa. Maðurinn sem ásamt ráðamönnum í Bandaríkjunum hefur verið hvað ötulastur við að vara við þeim ógnum sem heimsbyggðinni stendur af gereyðingarvopnum í eigu þjóða í Mið-Austurlöndum. Reyndar fundust engin slík í Írak og allt í besta lagi með að Ísraelar eigi þau.
Það er augljóst að sumum er treystandi fyrir tortímingartólum en öðrum ekki. Þeirra gereyðingarvopn eru eflaust í „almannaþágu“.
Sagt er í þessari grein að búist sé við að Blair verði ásakaður um „hræsni fyrir að þrýsta á ríki á borð við Íran og Norður-Kóreu að leggja kjarnorkuáætlanir sínar á hilluna á meðan hann áformi að þróa nýja tegund vopna fyrir Breta.“ Og hvað er þetta annað en hræsni? Þetta sýnir svart á hvítu hve hugsjónirnar rista djúpt. Þetta er einfaldlega spurning um hver er sterkastur, þá gerir hann hvað sem hann vill og notar hvers kyns áróður til að réttlæta gerðir sínar, mér finnst þetta jafnvel vera að þróast í þá átt að réttlætingar muni ekki þurfa við. Sérlega ef þeim ætlar að takast svona vel að innræta okkur rolluhugsunarhátt. „Við erum frjálsu og góðu súper-vesturveldin, ef aðrar þjóðir gera eitthvað sem okkur líkar ekki er það illt, þeir verða grýlugerðir en ef við gerum það sama er það gott verk, því við erum svo frábærir. Auk þess getum við sprengt ykkur ef þið eruð með eitthvað múður, og verður það einnig gott verk því við berum kyndil frelsisins“. En mér er spurn, erum við Vesturlandabúar í raun svona miklar rollur að lepja þetta allt upp og láta bjóða okkur þetta?

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.