mánudagur, mars 21, 2005

Af mótmælum og valdníðslu

Í fyrradag voru söfnuðust um 800 manns á Ingólfstorgi til að minnast þess að tvö ár eru liðin frá innrás Bandaríkjanna í Írak og til að mótmæla stríðinu. Ég var í þeim hópi. Það var góður andi og maður fann fyrir mikilli samstöðu. Hafði áður kíkt til Ungra Vinstri-Grænna, hitt þar m.a. Dag og Agga og útbjó mér skilti. Stefán Pálsson mælti fyrir fundinum og mæltist mjög vel, sem og Uglu Egilsdóttir sem einnig flutti erindi. Söfnun var í gangi og var um 700 nafspjöldum dreyft, þetta voru nöfn fórnarlamba, saklausra borgara sem höfðu fallið í Írak síðan að ráðherrar lýstu stuðningi við innrásina. Svartur borði hafði verið breiddur út og festum við nafnspjöldin á hann og gengum svo að stjórnarráðinu. Þar var áfram mótmælt, nokkur börn höfðu lagst á jörðina og lágu þar grafkyrr til að tákna lík og var það áhrifaríkt. Fleiri fóru svo að dæmi þeirra. Stjórnarráðið hafði verið gyrt af með borða og tóku þar 4 ábúðarfullir lögregluþjónar á móti okkur sem stóðu upp við húsið. Stefán Pálsson komst vel að orði þegar hann spurði hvort ætti að vera meira áhyggjuefni, friðarsinnar sem mótmæla stríðsrekstri, manndrápum, pyntingum og tortímingu, að við færum að rista upp torfþökur á Stjórnarráðslóðinni eða þeir sem leggja blessun sína yfir þessi voðaverk og styðja þau.


Þegar flestir voru farnir ákváðum við nokkrir mótmælendur að staldra aðeins lengur við. Ábúðarfullu lögregluþjónarnir stóðu við húsið, valdsmannslegir á svip. Loks tóku þeir niður borðann. Fyrst borðinn hafði verið tekinn niður fannst okkur eðlilegt að fara inn á lóðina, sem við og gerðum. Við gengum rólega upp tröppurnar og tókum okkur stöðu fyrir framan húsið. En lögreglan vildi bola okkur þaðan með valdi. Við sögðumst hafa fullan rétt til að vera þarna, borðinn hafði verið tekinn niður, við vorum á almennri lóð, við ógnuðum engum og vorum einungis með friðsamleg mótmæli, og kærðum okkur þar af leiðandi ekkert um að færa okkur. Við spurðum hvers vegna þeir væru að meina okkur að vera á lóðinni? Þeir gáfu engin svör við því, skipuðu okkur bara að færa okkur og þegar við létum okkur ekki segjast tóku þeir að ýta okkur. hótuðu einnig að handtaka okkur. Bróðir minn streittist á móti þegar gripið var harkalega í hann og fór það svo að fjórir gripu hann á hödum og fótum og vörpuðu niður á gagnstétt. Ungur piltur í okkar hóp varði sig einnig þegar lögreglan reif hann af jörðinni þar sem hann hafði lagst í mótmælaskyni, gripu hann höndum og færðu hann inn í lögreglubíl. Honum var sleppt skömmu síðar. Aðspurður sagði hann mér að þeir hefðu sagt honum að hann ætti rétt á að þegja og hann ætti yfir höfði sér handtöku. Hann velti auðvitað fyrir sér á hvaða forsendum þeir þóttust geta handtekið hann og spurði þá hvort þeir ætluðu með hann upp á stöð. Þeir litu hver á annan og þögðu dágóða stund. Loks slepttu þeir honum. Svæðið var aftur gyrt af, við stóðum þarna eilítið lengur, rökræður dugðu lítið á þá sem ekki vilja hlusta, við gerðum nokkur hróp að þeim en loks ákváðum við að halda í kaffi í MÍR-salnum.

Bróðir minn skrifar einnig um þetta á vangaveltur-vesteins.blogspot.com Eins og áður sagði mótmæltum við friðsamlega á almenningslóð og hafði ég talið að stjórnarskráin tryggði okkur rétt til þess. Einnig þykist ég hafa lesið þar að menn skyldu ekki teknir höndum að ósekju og án haldbærrar ákæru. En þarna var valdstjórnin að sýna okkur vald sitt. Okkur var bannað að vera þarna af því að okkur var bannað að vera þarna. Í mesta lagi hefði mátt handtaka okkur fyrir mótþróa við handtöku. Var þetta nauðsynlegt, að misbeita svona valdi sínu, leggja hendur á friðarsinna sem engum stóð stuggur af og brjóta á borgaralegum réttindum þeirra? Til hvers? Til að minna okkur á að þeir ráða. Reglum skal lúta reglananna vegna, jafvel þótt reglurnar lúti engum öðrum tilgangi. Það þarf að minna á að Stóri Bróðir fylgist með þér.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.