Um daginn fór ég á yndislega tónleika, jólatónleika módettukórs Hallgrímskirkju. Allt vann saman að gera þessa stund sem fegursta. Lagavalið var afar gott, reyndar saman komin flest bestu jólalögin, að mínu mati og flutningur næsta óaðfinnanlegur sem og samhljómur. Stjórnandi var Hörður Áskelsson, Sigurður Flosason lék á saxófón, Björn Steinar Sólbergsson spilaði á orgel og Ísak Ríkarðsson, 11 ára söng drengjasópran. Hafði hann einstaklega blíða og fallega rödd, en var þó ekki sérlega skýrmæltur, þ.e; orðaskil ekki mjög greinileg, virkaði nokkuð feiminn.
Aðeins á tveimur stöðum þótti mér tónlistarfólkinu fatast flugið og þótti það miður því bæði lögin eru mér afar kær. Fyrra lagið var „Jól“ eftir ömmu mína, Jórunni Viðar. Það var jólalag ríkisútvarpsins 1988, þá frumflutt af Skólakór Kársness. Upphaflega var flauta í laginu en var hér leikið á saxófón. Fannst mér lagið flutt of hratt, raddirnar verða að fá að njóta sín, ,,svörin” verða að heyrast. Einnig saknaði ég sárlega síðasta flautusólósins, en það sker sig frá hinum og verður því sérstæðara og fallegra fyrir vikið. Það er sóló sem snertir innstu strengi mína. Því var sleppt, og í stað þess spilað venjulega sólóið.
Útsetning ,,Með gleðiraust og helgum hljóm” hafði heppnast mjög vel, í því lagi var þeirri aðferð beitt að láta söngvara byrja á mismunandi tíma og syngja e-k keðju, mishátt svo útkoman minnti á klukknaspil, gengu söngvarar eftir kirkjunni og virkaði sérlega vel með bergmálið. Kannski dálítið leitt að Marteinn hafði fengið sömu hugmynd fyrir MR-kórinn við flutning sama lags.
Þessari aðferð var svo aftur beitt í öðru eftirlætis jólalagi mínu, ,,Það aldin út er sprungið”. Þá byrjaði lítill sönghópur að synga raddað, svo komu hinir í keðju og fyrir mér varð þettaglundroði. Enginn samhljómur í röddunum og var eins og hver væri að syngja sitt lag sem passaði ekki við hitt. Saxófóninn spilaði e-ð sem virtist ,,freeform”, allavegana passaði það hvergi inn í ósamhljóma bakgrunninn. Það var í raun fyrst í lokin þegar raddirnar komu saman í hefðbundnu útsetningunni að það hljómaði vel. Þá hugsaði ég: ,,Þetta var það sem ég var að bíða eftir!”.
Það aldin út er sprungið er einstaklega fallegt jólalag. Texti Matthíasar Jochumssonar er forkunnarfagur. En raddsetningin er einnig einn mesti styrkur lagsins, og diminuendo-crescendo-ið í því.
Að þessum tveimur lögum undanskildum hef ég svo ekkert annað út á að setja. Amma ræddi við stjórnandann eftir tónleikana og gat bent honum kurteislega á að lag hennar væri spilað hels til hratt. Nefndi hún ekki sólóið, en ég vona að einhver verði til að kippa því í lag.
Þetta voru tvö lög af tuttugu, hin heppnuðust með eindæmum vel. Það var sérdeilis falleg stund þegar þau fluttu ,,Heims um ból” sem aukalag. Ég var djúpt snortinn af þessum tónleikum og vona ég að þeir verði gefnir út, eða ég geti alltént nálgast disk með þessu prógrami í flutningi kórsins og hljóðfæraleikaranna.
fimmtudagur, desember 09, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli