laugardagur, maí 22, 2004

Andaktugi ungi maðurinn gengur á vordegi meðfram ströndinni. Sjávarfuglar sveima yfir lygnu hafinu, svalur andvarinn fellur á kinnar hans. Grámóskuleg ský þekja himnininn, aðeins fölbleikur augnsteinn á himni, dauf skíman. Hús vakna af doða og teygja úr sér að baki honum.
Skínandi beinhvítt fley horfir út á hafið. Fölur silfurbjarmi lýsir. Býr sig til ferðar hvíslandi raddir feigðar bergmála úr þokunni handan við endimörk tímans
kalla það ofan í langferð
Regnið steypist niður
Það bíður staðfast hinstu ferðar til eilífðar


Nú sér fyrir endann á prófunum. Munnleg enska var í dag og munnleg íslenska á morgun. Svo lýkur skólanum. Ekki laust við að það séu í senn blendar tilfinningar; gleði og fögnuður yfir loknum áfanga og ákefð eftir því sem nú tekur við, en einnig söknuður, viðskilnaður við gamlan vin sinn annað heimili, Menntaskólann í Reykjavík ásamt öllum minningunum sem maður á frá skólagöngu sinni hér, sem munu ylja manni um ókomin ár.
Ég hef mikið hlustað á The Rolling Stones undanfarið og læt hér fylgja smá brot úr Mixed Emotions:

You're not the only one
With mixed emotions
You're not the only ship
Adrift on this ocean


Ég fór á frumsýningu söngleiksins Edith Piaf í Þjóðleikhúsinu með pabba og hafði afar gaman að. Afbragðsgóð sýning þar á ferð. Og sérstaklega var Brynhildur Guðjónsdóttir ógleymanleg í aðalhlutverkinu. Hún var sannarlega stjarna sýningarinnar. Það vakti um leið áhuga minn að kynna mér betur þessa stórkostlegu söngkonu (þ.e. Piaf, en báðar eru þær auðvitað stórkostlegar). Og maður er satt best að segja alveg dolfallinn. Það er þessi tilfinning, þessi einlægni, hlýja, dramatík innlifun og kynþokki í söng hennar, hún syngur frá innstu hjartarótum.
Þessi lýsing ætti reyndar eins við Brynhildi, því hún söng sannarlega frá hjarta og sál.
Mig langar einnig til að kynna mér lífshlaup Edith Piaf betur, verða mér kannski út um ævisögu hennar. Það er ljóst að hún hefur verið einstæð manneskja.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.